Úr Arnarfirði. (Mynd: Shutterstock)
Stofnmat og ráðgjöf vegna rækju í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi
Hafrannsóknastofnun leggur til, í samræmi við varúðarsjónarmið, að afli rækju í Arnarfirði fiskveiðiárið 2024/2025 verði ekki meira en 169 tonn og að rækjuveiðar verði ekki heimilaðar í Ísafjarðardjúpi. Forsendur ráðgjafar má finna hér fyrir Ísafjarðardjúp og hér fyrir Arnarfjörð.
Stofnvísitala rækju í Arnarfirði hefur verið nokkuð stöðug frá árinu 2018. Mikið var af ýsu á svæðinu en árin 2020-2024 voru vísitölur ýsu þær hæstu frá árinu 2011. Vísitala þorsks var sú þriðja hæsta sem mælst hefur frá árinu 1994. Nánari upplýsingar um niðurstöður stofnmælingarinnar í Arnarfirði og veiðar má nálgast hér.
Stofnvísitala rækju í Ísafjarðardjúpi mældist lág og var hún undir skilgreindum viðmiðunarmörkum. Vísitölur ýsu hafa verið háar frá árinu 2004 og frá árinu 2020 hafa þær verið mjög háar í sögulegu samhengi. Nánari upplýsingar um niðurstöður stofnmælingarinnar í Ísafjarðardjúpi og veiðar má nálgast hér.