Skrifborð, sjór, stígvél og slor

Sigurlína Gunnarsdóttir rannsóknamaður á Botnsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar. Á neðri myndinni má … Sigurlína Gunnarsdóttir rannsóknamaður á Botnsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar. Á neðri myndinni má sjá hana kampakáta handleika hlýra um borð í rannsóknaskipi stofnunarinnar.

Sigurlína Gunnarsdóttir hefur starfað hjá Hafrannsóknastofnun alla sína starfsævi fyrir utan sumarstörf á meðan á menntaskólanámi stóð. Eins og títt er með ungt fólk var hún óákveðin með frekara nám og sá ekkert endilega fram á að helga sig vísindastörfum tengdum hafrannsóknum.

Eftir stúdentspróf árið 1980 ætlaði Sigurlína að mæta til vinnu í Bæjarútgerðinni, eins og hún hafði gert sumarið áður. Vegna verkfalls fékk hún þó ekki starfið sem hún hafði gert ráð fyrir en fékk þess í stað sumarvinnu hjá Hafrannsóknastofnun við að greina rækjulirfur og magasýni.

Hana langaði þó í frekara háskólanám. „Ég vissi að ég vildi læra eitthvað en vissi ekki hvað. Raungreinar heilluðu mig ekki en ég hafði velt því fyrir mér að fara í hjúkrunarfræði,“ segir Sigurlína. Úr varð að henni var boðin áframhaldandi staða um haustið á botnfiskadeild. Á þessum tíma fór Sigurlína mikið á sjó og vann við ólík verkefni undir stjórn Sigfúsar Schopka fiskifræðings, sem var yfir þorskrannsóknum á þeim tíma, og líkaði vel.

Ákveðin fagleg vending varð í lífi Sigurlínu þegar hún kynntist Eiríki Einarssyni bókaverði. Bókasöfn Hafrannsóknastofnunar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins voru í sama húsi að Skúlagötu 4, fyrst aðskilin en síðar sameinuð en þá varð til stærsta fagbókasafn landsins, Sjávarútvegsbókasafnið. „Ég kynntist Eiríki og því gefandi umhverfi sem bókasöfn eru og fannst sem ég hefði fundið fagið mitt. Ég ákvað því að skrá mig í nám í bókasafns- og upplýsingafræði.“

Fagið hefur líklega meiri tengingu við þau vísindastörf, sem Sigurlína hafði sinnt og átti eftir að sinna síðar, en blasir við í fyrstu, þar sem bóksafns- og upplýsingafræði fjallar að miklu leyti um skipulag og skráningu þekkingar. „Þannig að eftir á að hyggja finnst mér stundum faglegt líf mitt hafa verið röð tilviljana en um leið líka eins og mér hafi verið stýrt í ákveðna átt.“

Sigurlína segir að hún hafi vafalítið lagt aðra þætti á vogarskálar vísindanna en þau sem höfðu lokið annarskonar og hefðbundnara námi innan stofnunarinnar. Hún kláraði námið á fjórum árum og vann allan tímann í hálfu starfi á botnfiskadeildinni. Hún segist hafa notið sveigjanleika varðandi námið og notið sín vel bæði í námi og starfi.

Árið 1988 var Sigurlína ráðin bókasafnsfræðingur á Sjávarútvegsbókasafnið. Þetta var gríðarlega skemmtilegt tímabil og endurspeglaði mikilvægi bókasafna á þessum tíma – en þau þjónuðu að mörgu leyti sama hlutverki og internetið gerir í dag. Þarna var ritvélin mikilvægt vinnutæki, fólk sótti safnið mikið og kallaði eftir sértækum bókum og tímaritum vegna rannsóknastarfa enda var landsaðgangur bókasafna að tímaritum ekki kominn á þessum tíma.

„Bókasafnið var bæði mikilvægur þekkingarbrunnur en líka griðastaður fyrir rannsóknafólkið okkar. Fólk var þakklátt fyrir þjónustuna og mér fannst líka ánægjulegt að veita hana,“ segir Sigurlína. Allt þetta gerði það að verkum að ég minnist þessa tíma með mikilli ánægju. En tímarnir breyttust og með aukinni tæknivæðingu varð fólk meira sjálfbjarga og gat leitað að efni upp á eigin spýtur. Álagið á safninu fór minnkandi og árið 2006 ákvað Sigurlína að söðla um og gerast aftur rannsóknamaður, nú á nytjastofnasviði.

„Nú starfa ég á botnsjávarsviði og mitt aðalstarf er að halda utan um endurheimtur fiskmerkja. Fiskmerkingar eru notaðar til að afla þekkingar á útbreiðslu og fari fiska. Skil á merkjum eru forsenda margskonar rannsókna og þar eru sjómenn og starfsfólk í fiskvinnslum öflugir liðsmenn og þátttaka þeirra ómetanleg.“

Sigurlína tekur við merkjunum og skráir upplýsingar í gagnagrunn sem fylgja þeim s.s. hvar fiskurinn var veiddur, lengd hans og þyngd, kyn, kynþroska sem og aldur. Ef að kvarnir úr hausum fiskana fylgja með eru þær eru notaðar til að aldursgreina fiskinn og þær upplýsingar skráðar að auki.

Það er farið að líða á starfsævina hjá Sigurlínu enda komin 45 ár síðan hún hóf fyrst störf hjá Hafrannsóknastofnun; ung kona sem vissi ekki hvað framtíðin bæri í skauti sér en heillaðist af ólíkum en krefjandi verkefnum við rannsóknir, sýnatökur, gagnaskráningu í landi og á sjó. Fann svo sína fjöl og sitt fag við skráningu þekkingar sem bókasafnsfræðingur á stærsta fagbókasafni landsins. Hún segist nú vera komin í hring; er farin að vinna sumpart við áþekk verkefni og þegar hún byrjaði en starfinu fylgi einnig ýmis önnur verkefni m.a. landsýnatökur þar sem tekin eru sýni úr lönduðum afla og sjóferðir.

„Mér finnst þessi fjölbreytileiki í starfinu mjög skemmtilegur; að taka þátt í því að afla gagna sem eru undirstaða ýmissa vísindarannsókna sem t.d. fiskveiðiráðgjöfin byggir á. Einnig hefur verið magnað að fylgjast með því hvernig tækninni hefur fleygt fram varðandi fiskirannsóknir á sl. árum og áratugum.“

Sigurlína kynntist manninum sínum Jens Magnúsi Magnússyni húsasmíðameistara árið 1992 og eignuðust þau tvo syni, þá Magnús tölvunarfræðing og Gunnar Orra hagfræðing. Hún missti manninn sinn fyrir rúmum tveimur árum og var það henni eins og gefur að skilja gríðarlegt áfall. „Þessi staða breytir miklu í mínu lífi en það veitti mér mikinn styrk að fjölskyldur okkar beggja, vinir og nánustu vinnufélagar sýndu mér mikið vinarþel og samkennd. Það sem stendur upp úr eftir langa og farsæla starfsævi, fyrir utan verkefnin sem ég brenn fyrir, er allt það frábæra samstarfsfólk sem ég hef kynnst og margt af því eru góðir vinir mínir í dag,“ segir Sigurlína að lokum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?