Óróleg grindhvalavaða í Breiðafirði

Mynd og myndband: Svanhildur Egilsdóttir. Mynd og myndband: Svanhildur Egilsdóttir.

Sumarleyfi tveggja starfsmanna Hafrannsóknastofnunar tók óvænta stefnu þann 16. júlí síðastliðinn þegar þeir urðu vitni að mjög sérstöku atferli grindhvala (Globicephala melas melas). Starfsmennirnir voru í kayakferð í innanverðum Breiðafirði, fram af mynni Álftafjarðar, þegar hópur grindhvala kom syndandi að þeim.

Um 20 dýra hóp var að ræða. Dýrin bárust með aðfallsstraumi um sund inn fyrir eyjaklasa í mynni Hvammsfjarðar. Í samráði við sérfræðing á Náttúrustofu Vesturlands var tekin ákvörðun um að fylgjast með atferli og afdrifum dýranna, ekki síst vegna þess að árið 2020 strönduðu og drápust 10 grindhvalir í Álftafirði og 50 á Löngufjörum og því voru taldar líkur á að eitthvað slíkt gæti gerst.

Hvalirnir héldu sig mjög þétt og blésu mikið. Þeir virtist hafa mikil samskipti sín á milli með snertingu og hátíðnihljóðum og einstaka sinnum komu hressileg prumphljóð. Yfirleitt voru einn eða nokkrir hvalir með höfuðið vel upp úr sjónum þegar þeir voru í hnapp. Hægt er að hlusta á grindhvali hér á heimasíðu NOAA. Öðru hverju var eins ókyrrð kæmi á hópinn og þeir syntu með látum og buslugangi fram og til baka og það atferli endaði svo með því að hvalirnir syntu í hringi á litlu svæði og enduðu svo aftur saman í hnapp.

Fylgst var með hvölunum allan daginn en skilið við hópinn þegar kvöldaði. Þá hélt hópurinn sig enn í straumnum og barst nú með útfallinu að sundi milli Gvendareyja og Ólafseyjar sem eru í mynni Hvammsfjarðar. Dagana eftir var róið víða um eyjarnar í mynni Hvammsfjarðar en sem betur fer varð ekki vart við dýrin. Enn hafa engar fregnir borist af reknum grindhvölum í Breiðafirði þannig að vonandi hafa þeir náð að koma sér í dýpri sjó eftir þessa hættuför.

Grindhvalir halda sig öllu jöfnu í úthafinu í Norður-Atlantshafi, allt frá Spáni norður til Grænlands, en miðja útbreiðslunnar er á milli Íslands og Grænlands á sumrin. Á veturna færa þeir sig sunnar og þá er miðja útbreiðslunnar við Skotland og Írland. Grindhvalir lifa aðallega á smokkfiskum og kolkröbbum, en einnig á fiski eins og gullaxi og kolmunna. Þeir eru ein algengasta hvalategundin í Norður-Atlantshafi og er stofninn talinn vera um 400.000 dýr. Þeir sjást yfirleitt í stórum hópum, þar sem tugir eða hundruð dýra af báðum kynjum ferðast um saman. Hóparnir eru yfirleitt tengdir í kvenlegg. Ekki er vitað hvað hvalirnir voru að gera í innanverðum Breiðafirði, en töluvert er um að hópar strandi og hafa um 280 grindhvalir strandað í hópströndum síðan 1982. Þar spilar hóphegðun þeirra inn í, þar sem þeir halda hópin jafnvel þótt að einhver dýr séu í hættu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?