Ljósm. úr safni Hafrannsóknastofnunar
Í nýútkominni grein í vísindaritinu „PeerJ“ eru kynntar rannsóknir á hegðun algengra botnfiska við veiðar með botnvörpu. Rannsóknin fór fram á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni og var leiðangursstjóri Haraldur Arnar Einarsson, sérfræðingur í veiðafærarannsóknum hjá Hafrannsóknastofnun.
Höfundar greinarinnar telja niðurstöðurnar mikilvæga viðbót við fyrri rannsóknir á hegðun fiska við veiðar og sýni glöggt hvernig hegðun fiska af mismunandi tegundum og stærð getur haft áhrif á hvernig þeir komist undan vörpunni. Á venjulegum botnvörpum er hefðbundið að nota svokallaða „rockhoppera“, sem eru einskonar gúmmíhjól sem þó rúlla ekki eftir botninum. Fiskar geta smogið á milli eða undir hjólin en oftast lyfta fiskarnir sér upp og hafna í vörpunni. Þekking á viðbrögðum fiska við botnvörpunni getur því skipt miklu við hönnun veiðarfæra.
Við þessa rannsókn voru settir safnpokar á þrjá staði utan við botnvörpuna, þ.e. á báða vængi og fyrir miðju. Með þessu móti mátti sjá hvar fiskur slapp undir veiðarfærið og hvort það væri munur eftir tegundum eða lengd. Smár þorskur og ýsa fór að mestu undir vörpuna fyrir miðju en stærri fiskar af þessum tegundum frekar við vængi. Meiri breytileiki kom í ljós hjá flatfiskum. Þó mátti sjá að skötuselur fór oftast undir vörpuna við vængi eða í nær 80% tilfella. Rannsóknin var unnin í samstarfi við vísindamenn við Hafrannsóknastofnunina í Noregi og Hafrannsóknastofnunina í Kanada. Úr þessum sömu gögnum er verið að vinna aðra vísindagrein þar sem fjöldi fiska af þessum tegundum sem fer undir vörpuna er kannaður og gerður samanburður á degi og nóttu.
Hlekkur á greinina