Ný skýrsla um aðferðir við ákvörðun á vistmegni mikið breyttra vatnshlota

Hálslón og Kárahnjúkur, en lónið er dæmi um mikið breytt vatnshlot. Hálslón og Kárahnjúkur, en lónið er dæmi um mikið breytt vatnshlot.

Nýlega kom út skýrsla sem ber heitið Aðferðir við ákvörðun á vistmegni mikið breyttra vatnshlota. Verkefnið er samstarfsverkefni Hafrannsóknastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Veðurstofu Íslands og er unnið fyrir Umhverfisstofnun. Það snýr að lögum um stjórn vatnamála sem sett voru árið 2011, en markmið þeirra er að vernda vatn og vistkerfi þess. Með lögunum var skilgreint hugtakið vatnshlot sem er eining vatns, svo sem allt það vatn sem er að finna í stöðuvatni, á eða strandsjó. Megin markmið laganna er að vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið um mjög gott eða gott vistfræðilegt ástand. Hins vegar geta breytingar af mannavöldum verið svo umfangsmiklar að vatnshlotin geta ekki náð því markmiði og í sumum tilvikum má Umhverfisstofnun skilgreina þau sem mikið breytt vatnshlot. Skulu þau uppfylla markmið um gott vistmegin. Í þessari skýrslu eru lagðar fram aðferðir til að samræma mat á vistmegni mikið breyttra vatnshlota á Íslandi.

Í skýrslunni er fjallað um aðferðir við ákvörðun vistmegins í mikið breyttum vatnshlotum í samræmi við leiðbeiningar Evrópusambandsins. Leiðbeiningarnar voru gerðar til að samræma aðferðir við ákvörðun á vistmegni mikið breyttra vatnshlota í Evrópu sem er nauðsynlegt til að uppfylla skilyrði vatnatilskipunar Evrópusambandsins.

Við ákvörðun á besta og góðu vistmegni þarf að greina hvaða mótvægisaðgerðir eru viðeigandi í hverju vatnshloti með áherslu á aðgerðir sem líklegastar eru til að skila bestum árangri fyrir vistkerfið. Áhersla er lögð á að tryggja vistfræðilega samfellu í vatnshlotum til að vistkerfið starfi á sem eðlilegastan hátt. Við ákvörðun á vistmegni vatnshlota er nauðsynlegt að miða við vatnshlot sem eru sambærileg mikið breyttu vatnshlotunum. Sem dæmi má nefna skyldi almennt miða við gæðaþætti í stöðuvötnum þegar meta skal vistmegin uppistöðulóna (t.d. fyrir vatnsaflsvirkjanir), þrátt fyrir að vatnshlotið hafi tilheyrt straumvötnum fyrir framkvæmdir.

Fjallað er um tvær meginstefnur við ákvörðun á vistmegni, þ.e. viðmiðunarnálgun og mótvægisnálgun. Viðmiðunarnálgun má nota ef gögn um líffræðilega gæðaþætti eru nægileg og góð þekking er á tengslum líffræðilegra og vatnsformfræðilegra þátta. Ef gögn um gæðaþætti eru hins vegar af skornum skammti má ákvarða vistmegin með mótvægisnálgun og er það gert út frá þeim mótvægisaðgerðum sem til staðar eru og gagnast lífríkinu hvað best. Aðferðirnar tvær eiga að leiða til sömu niðurstöðu í vistfræðilegu tilliti og báðar byggja þær á að mótvægisaðgerðir séu til staðar sem milda áhrif framkvæmda á vatnsformfræði vatnshlotanna, sérstaklega hvað varðar vistfræðilega samfellu.

Skýrsluna má nálgast hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?