Þrettándi fjölgeislaleiðangur Hafrannsóknastofnunar í átaksverkefninu Kortlagning hafsbotnsins
Þann 9. apríl sl. hófst þrettándi kortlagningaleiðangur Hafrannsóknastofnunar í átaksverkefninu Kortlagning hafsbotnsins. Á leið leiðangursfólks frá Vestmannaeyjum vestur fyrir Reykjaneshrygg, var hafsbotninn kortlagður á Reykjanesgrunni, Faxabanka og Jökuldjúpi. Þrátt fyrir norð-norðvestan hvassviðri og mikla brælu hefur tekist að safna ágætis dýpismælingum af hafsbotninum, um 5.996 km2 þegar þessi frétt er skrifuð.
Mælingar á hafsvæði vestan Jökulbanka standa nú yfir og skilyrði orðin allgóð. Hafsbotninn á svæðinu einkennist af hallandi landgrunnshlíð vesturlands með tilheyrandi setskriði (e.slumps), eðjustraumum (e. turbidity currents), farvegum (e. channels) og skriðusárum (e. fault scarps). Tignarlegasta jarðfræðiafbrigðið á þessu svæði er um 450 metra hár norðaustur – suðvestur hryggur sem þverar allt mælingasvæðið en endar skyndilega við landgrunnshlíðina 27,25° V. Hafskorpan á þessu svæði er líklegast um 13 – 15 milljón ára gömul hulin þykkum setbunkum og ber ummerki um mikla eldvirkni í formi sæfjalla (e. seamounts), hryggja (e. ridges) og keilufjalla, svipuð þeim sem fyrst voru mæld með fjölgeislamæli árið 2009 í Keiludjúpi. Þessi eldvirkni hefur líklega átt sér stað samhliða virkni á Vestfjarðarekbeltinu fyrir ~15 milljón árum síðan (Benediktsdóttir, 2012; Sæmundsson, 1974). Sjá myndir neðar.
Úr leiðangursskýrslu A200907 eftir Guðrúnu Helgadóttur:
“Árið 2009 voru kortlagðir um 2.700 km2 á djúpslóð á lítt þekktu veiðisvæði. Forsendur leiðangursins voru að ljúka við kortlagningu á einum fengsælustu fiskimiðum landsins, Nesdjúp. Tveimur síðustu sólahringum leiðangursins, 18. – 19. júní 2009, var hið fyrrnefnda svæði kortlagt sem var nefnt af leiðangursfólki Keiludjúp, en ábendingar höfðu fengist frá skipstjóra á grálúðuveiðum um strýtulaga fyrirbær. Ábendingar um strýtur á hafsbotninum reyndust sannarlega vera réttar. Fyrirbærin fundust á 900-1300 metra dýpi við rætur landgrunnsins um 100 sjómílur vestsuðvestur af Snæfellsnesi. Keilurnar eru 40-200 metra háar. Á norðanverðu mælingasvæðinu fannst 450 metra hátt reglulega lagað fjall með tiltölulega flötum gíg á toppinum.”
Smellið á myndir til að sjá þær betur:
Mynd 1. YfirlitafmælingasvæðinuvestanJökulbanka, A202404.
Mynd 2. Setskrið.
Mynd 3. Skriðusár í landgrunnshlíðinni.
Mynd 4. Norðaustur – suðvesturhryggur.
Mynd 5. Sæfjöll og hryggir.
Mynd 6. Keilufjöll.
Mynd 7. YfirlitafmælingasvæðinuKeiludjúp, A200907.
Benediktsdóttir, Á., Hey, R., Martinez, F., & Höskuldsson, Á. (2012). Detailed tectonic evolution of the Reykjanes Ridge during the past 15 Ma. Geochemistry, Geophysics, Geosystems, 13(2). https://doi.org/10.1029/2011GC003948
Helgadóttir, G. (2009). Fjölgeisladýptarmælingar í Nesdjúpi og á djúpslóð vestur af Snæfellsnesi á rs. Árna Friðrikssyni RE 200 sumarið 2009 (Leiðangursskýrsla A200907). Hafrannsóknastofnun.
Sæmundsson, K. (1974). Evolution of the axial rifting zone in northern Iceland and the Tjornes fracture zone, Geol. Soc. Am. Bull., 85(4), 495–504.