Innbyrðis sveiflur einstakra svifþörungategunda í Þingvallavatni

Sýnataka undir þokuboga á Þingvallavatni. Sýnataka undir þokuboga á Þingvallavatni.

Nýlega kom út skýrsla, þar sem fram kemur samantekt á niðurstöðum vöktunar á svifþörungum í Þingvallavatni á 10 ára tímabili, á árunum 2015–2024. Í skýrslunni kemur fram að vöktunin hafi leitt í ljós að þótt magn svifþörunga fylgi í stórum dráttum árstíðabundinni kúrfu, sjást miklar innbyrðis sveiflur í magni einstakra tegunda milli ára.

Þá vekur eftirtekt að hlutdeild annarra þörunga en kísilþörunga er mest í júlí–september, en á þeim tíma er heildarmagn þörunga iðulega í lágmarki. Á sama tíma eru svifdýrastofnar vatnsins alla jafna í miklum vexti, sem vekur ýmsar spurningar svo sem hvort gæði þess þörungasvifs sem er í framboði fyrir dýrasvifið skipti meira máli en magn?  Ljóst er að upplýsingar um samsetningu þörungasvifs eru ekki síður mikilvægar en upplýsingar um magn þess.

Svifþörungar eru smásæir en eru afar mikilvægir þar sem þeir mynda m.a. fæðugrunn fyrir krabbadýr sem lifa á að sía þá úr vatnsbolnum, en einnig geta þeir borið næringarefni til djúpbotns vatnsins þegar þeir falla til botns.

Þegar litið er til magns svifþörunga i svifvist Þingvallavatns kemur í ljós að kísilþörungar eru ráðandi hópur og þá aðallega þrjár tegundir þeirra, Aulacoseira islandica, Aulacoseira subarctica og Asterionella formosa. Allt eru þetta stórvaxnar tegundir á mælikvarða svifþörunga. Aðrir áberandi hópar eru gullþörungar, dulþörungar, skoruþörungar og grænþörungar, en blágrænar bakteríur koma einnig fyrir.

Höfundur skýrslunnar er Gunnar Steinn Jónsson þörungafræðingur og er skýrslan ein af afurðum vöktunar á lífríki Þingvallavatns sem staðið hefur frá árinu 2007.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?