Hvalatalningasmáforrit Hafrannsóknastofnunar tekið í notkun

Eins og sjá má á Mælaborði hvalatalninga eru andarnefjur, búrhvalir og langreyðar þær  hvalategundir… Eins og sjá má á Mælaborði hvalatalninga eru andarnefjur, búrhvalir og langreyðar þær hvalategundir sem hafar verið taldar í mestu mæli á 5. talningadegi. Myndin er af andnefju (Hyperoodon ampullatus). Myndin er fengin úr Shutterstock myndabankanum.

Hvalatalningasmáforrit Hafrannsóknastofnunar er komið í gagnið eftir mikla þróunar- og undirbúningsvinnu þróunarteymis stofnunarinnar sem samanstendur af forriturunum: Adami Postek, Halldóri Jens Vilhjálmsson, Hrólfi Júlíusson og Ragnari Ingimundarsyni.

Frumútgáfa forritsins er núna í prufukeyrslu á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni HF 200 og hefur reynst vel, en fram að þessu hefur verið notast við blöð, blýant og upptökutæki til að skrá talda hvali. Um leið og hvalatalningafólk hefur komið auga á hval og skráð inn í kerfið uppfærast upplýsingar um stöðu talninga. Smáforritið miðlar gögnum beint til Hafrannsóknastofnunar í gegnum vefþjónustur en teymið hannaði samhliða Mælaborð hvalatalninga sem sýnir grafískt stöðu hvalatalninga hverju sinni. Eins og fram kemur í frétt Hafrannsóknastofnunar um upphaf hvalatalninga í ár er hér um að ræða eina umfangsmestu dýratalningu veraldar, enda talningarsvæðið mjög víðfeðmt (sjá kort í frétt hér).

Halldór Jens, einn þeirra sem tók þátt í hugbúnaðarþróuninni, segir það hafa verið sérlega ánægjulegt að taka þátt í gerð smáforritsins og eiga þannig þátt í að gera hvalatalningar nútímalegri en áður. Einnig sé gaman að segja frá því að Havstofvan í Færeyjum er einnig að prufukeyra forritið í sínum hvalatalningum samhliða Hafrannsóknastofnun.

Mælaborð hvalatalninga sem byggir á upplýsingum úr smáforritinu er aðgengilegt almenningi með þessum tengli, smellið hér. 

Hér má sjá staðsetningu skipa Hafrannsóknastofnunar hverju sinni.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?