Grásleppuveiðibann á grunnsævi líklegt til að hafa áhrif á veiðarnar

Teistur sem veiddust í grásleppunet. Teistur sem veiddust í grásleppunet.

Mun grásleppuveiðibann á grunnsævi, til að minnka meðafla á sjófuglum, hafa áhrif á veiðarnar?

Meðafli sjófugla í grásleppunetum er þekkt vandamál í þeim löndum sem grásleppa er veidd, og fáar ef einhverjar lausnir eru til á vandanum. Þannig er metið að um 3000-8000 fuglar drukkni í grásleppunetum á ári hverju við Ísland, sjá nánar hér.

Á síðasta ári birtist grein í tímariti Konunglega Breska Vísindafélagsins (Royal Society Open Science) eftir vísindamenn frá Fuglavernd (Birdlife International), þau Yann Rouxel, Hólmfríði Arnardóttur, og Stefan Oppel, sjá hér. Í þeirri rannsókn var fælibúnaður fyrir fugla prófaður á grásleppunetum með litlum árangri, en á sama tíma settu þau fram þá tilgátu byggða á rannsóknum sínum í Húnaflóa að hægt væri að minnka fuglameðafla mikið með því að banna veiðar á minna en 50 metra dýpi. Eins fullyrtu þau að slíkt bann hefði lítil áhrif á veiðarnar.

Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar, þeir James Kennedy og Guðjón Már Sigurðsson, birtu nýlega svargrein í sama tímariti við tilgátum þeirra, sjá hér. Þeir benda á að tilgátan sé byggð á fremur takmörkuðum gögnum, eða frá sjö grásleppubátum sem allir stunda veiðar í Húnaflóa. Þar af voru aðeins þrír sem veiddu á meira en 50 m dýpi að einhverju leyti. Eins er bent á að þó að meðafli sumra tegunda fugla minnki með auknu dýpi, þá eigi það ekki við um allar tegundir, og t.d. aukist meðafli langvíu með dýpi og nær hámarki á milli 50 og 60 m.

Í svargreininni er sýnt fram á að á flestum veiðisvæðum hefði slíkt bann mikil áhrif á grásleppuveiðina, og jafnvel bann við veiðum á 30 m og grynnra. Þá mætti gera ráð fyrir að veiðar í t.d Faxaflóa og Breiðafirði myndu að mestu leggjast af eða þyrftu að taka mjög miklum breytingum ef að slíku banni yrði. Þess vegna draga þeir þá ályktun að fullyrðingin um að bannið hefði lítil áhrif á veiðarnar standist ekki skoðun, þó mögulega væri hægt að skoða takmarkanir á afmörkuðum svæðum þar sem meðafli er mikill.

Engu að síður telja höfundarnir og Hafrannsóknastofnun það mikilvægt að áfram sé leitað leiða til að minnka meðafla á sjófuglum og fagnar öllum tillögum og rannsóknum þar um.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?