Mynd af laxaseiðum.
Rannsóknarskýrsla um „Erfðablöndun villts íslensks lax (Salmo salar) og eldislax af norskum uppruna“ hefur verið gefin út af Hafrannsóknastofnun.
Í skýrslunni er greint frá erfðarannsóknum á sýnum af laxi úr 89 ám hringinn í kringum landið. Lögð var áhersla á ár í nálægð við sjókvíaeldissvæði. Fjöldi sýna var alls 6.348 laxaseiði.
Rannsóknin greindi sýni sem rekja má til hrygningar á árunum 2014 til 2019. Á þeim árum var framleiðslumagn í laxeldi í sjókvíum að meðaltali 6900 tonn.
Fyrstu kynslóðar blendingar og eldri erfðablöndun
Alls greindust 133 fyrstu kynslóðar blendingar (afkvæmi eldislaxa og villtra laxa) í 17 ám (2,1% sýna, innan 18% áa). Eldri blöndun (önnur kynslóð eða eldri) greindist í 141 seiðum í 26 ám (2,2% sýna, innan 29% áa).
Fyrstu kynslóðar blendingar voru algengari á Vestfjörðum en Austfjörðum sem er í samræmi við að eldið á Austfjörðum hófst síðar og hefur verið umfangsminna.
Eldri erfðablöndun var tíðari á Austfjörðum en Vestfjörðum og tengist líklegast eldinu sem þar var starfrækt í byrjun þessarar aldar. Eldri erfðablöndun var mest áberandi í Breiðdalsá og greindist í 32% (72 af 228) seiðanna.
Erfðablöndun greindist yfirleitt í minna en 50 km fjarlægð frá eldissvæðum en nokkrir blendingar fundust í allt að 250 km fjarlægð.
„Þessi viðamikla rannsókn staðfestir mikilvægi frekari rannsókna. Við þurfum að skoða kynslóðaskiptingu blendinganna ásamt umfangi þeirra og orsökum dreifinga eldri blöndunar.“ Guðni Guðbergsson, Sviðsstjóri ferskvatns- og eldissvið
Frekari rannsókna er þörf
Þörf er á frekari rannsóknum á kynslóðaskiptingu blendinga, umfangi og orsökum dreifingar eldri blöndunar. Niðurstöðurnar sýna að erfðablöndun hefur orðið við hlutfallslega lítið eldismagn.