Makríll. Mynd: Svanhildur Egilsdóttir
Niðurstöður liggja fyrir frá sameiginlegum uppsjávarleiðangri Íslendinga, Færeyinga, Norðmanna og Dana sem farinn var á tímabilinu 28. júní til 2. ágúst 2024. Meginmarkmið þessa árlega leiðangurs var að meta magn uppsjávarfiska í Norðaustur-Atlantshafi að sumarlagi en jafnframt að rannsaka vistkerfi og umhverfi sjávar. Leiðangurssvæðið var 2,2 milljón ferkílómetrar sem er tæplega 6% minna en síðasta ár þar sem yfirferð skipa fyrir sunnan og vestan Ísland og í norður Noregshafi var minni en undanfarin ár vegna samdráttar í útbreiðslu makríls.
Vísitala lífmassa makríls var metin 2,51 milljón tonn sem er tæplega 42% lækkun frá árinu 2023 og er minnsti lífmassi sem mælst hefur síðan 2007 (mynd 1). Vísitalan í ár er ríflega 66% lægri en langtímameðaltal gagnaseríunnar (7,4 milljónir tonna). Byggir vísitalan á afla í alls 205 stöðluðum yfirborðstogum á fyrirfram ákveðnum stöðvum.
Útbreiðsla makríls við Ísland var minni en á síðasta ári (mynd 2). Mesti þéttleikinn var fyrir utan landgrunnsbrúnina fyrir suðaustan landið. Ekkert mældist af makríl fyrir vestan og sunnan landið. Samt sem áður mældist um 19,9% af heildarlífmassa makríls í íslenskri landhelgi samanborið við 10,3% síðasta ár og er það vegna mikils afla á einni togstöð (10,3 tonn). Líkt og undanfarin ár var meiri hluti stofnsins í Noregshafi og þá sérstaklega suðvestan til.
Vísitala fyrir lífmassa kolmunna út frá bergmálsmælingum var metin tæplega 2 milljón tonn sem er um það bil sama og á síðasta ári. Vísitala fyrir lífmassa síldar út frá bergmálsmælingum var metin tæplega 3.8 milljón tonn sem er ríflega 24% lægra en á síðasta ári.
Samkvæmt gervihnattagögnum var meðaltalshitastig í yfirborðslögum sjávar austan, sunnan og vestan við Ísland lægra í júlí en á sama tíma í fyrra og ýmist álíka eða fyrir neðan meðaltal síðustu 20 ára. Fyrir norðan landið var hitastig hærra í ár en áfram undir 20 ára meðaltali. Í norðurhluta Noregshafs var yfirborðshiti yfir meðaltali síðustu 20 ára en nálægt meðaltalinu í suðurhlutanum.
Vísitala um magn dýrasvifs á hafsvæðinu í júlí við Ísland og í Noregshafi minnkaði lítillega samanborið við síðasta sumar og var álíka og langtímameðaltal leiðangursins síðan 2010.
Niðurstöður leiðangursins fyrir makríl voru kynntar innan stofnmatsvinnunefndar Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) í gær. Þær eru, ásamt öðrum gögnum, notaðar við mat á stofnstærð makríls en ICES mun birta ráðgjöf um aflamark næsta árs fyrir makríl, norsk-íslenska síld og kolmunna þann 30. september.
Skýrslu um bráðabirgðaniðurstöður leiðangursins má nálgast hér
Mynd 1. Vísitala fyrir lífmassa makríls fyrir árin 2007 og árlega frá 2010 til 2024. Vísitalan er bæði reiknuð án óvissu (rauðir fylltir hringir) og með óvissu (svartir fylltir hringir með 90% öryggismörkum, lóðréttar línur). Athugið að vísitala lífmassa árið 2011 er ekki gild mæling þar sem engin mæling var í norðurhluta Noregshaf það ár.
Mynd 2. Vísitala um magn makríls reiknuð fyrir reiti (2 breiddargráður og 4 lengdargráður) í júlí og ágúst 2024. Enginn makríll mældist í hvítum reitum litakvarðinn frá gulum til rauðs táknar vaxandi þéttleika sem tonn á ferkílómetra. Stærð hringja sýnir magn makríls á togstöðvum sem tonn á ferkílómetra og gráir litlir krossar eru togstöðvar þar sem enginn makríll veiddist.