Þátttakendur frá hægri: Celso Domingos, (CIIMAR - Interdisciplinary Centre of Marine and Environmental Research, Portugal); Pilar Rios (IEO-CSIC-Spanish Oceanographic Institute); Gustavo Guarin (Laval University, Quebec, Canada); Christine Morrow, (Queens University, Belfast, Northern Ireland); Guðmundur Guðmundsson (Náttúrufræðistofnun); Javier Cristobo (IEO-CSIC-Spanish Oceanographic Institute); Steinunn Hilma Ólafsdóttir (Hafrannsóknastofnun); Joana Xavier, CIIMAR - Interdisciplinary Centre of Marine and Environmental Research & University of Bergen); Paco Cardenas, (Uppsala University, Sweden); Laure de Montety (Hafrannsóknastofnun). Á myndina vantar Bylgju Sif Jónsdóttur og Petrúnu Sigurðardóttur frá Hafrannsóknastofnun.
Dagana 8.–19. september komu sjö erlendir sérfræðingar í svampdýrum (Porifera) til Íslands í boði Náttúrufræðistofnunar Íslands í þeim tilgangi að greina svampdýr í Þekkingarsetrinu í Sandgerði, ásamt starfsmönnum frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Hafrannsóknastofnun. Markmið samstarfsins er að auka þekkingu á tegundasamsetningu svampdýra á Íslandsmiðum og í framhaldinu að kortleggja útbreiðslu einstakra tegunda.
Árin 1991 – 2004 var safnað á vegum botndýraverkefnisins (BIOICE), miklu magni af svampdýrum á 579 stöðvum víðsvegar innan 200 mílna efnahagslögsögu Íslands. Lítill hluti þessa efniviðar hefur verið rannsakaður til hlítar. Þó er vitað um 193 tegundir svampdýra á Íslandsmiðum, en vafalítið eru þær umtalsvert fleiri. Sýnasafnið úr botndýraverkefninu gefur færi á að kortleggja útbreiðslu svampdýrategunda og þar með fylgni við ýmsa umhverfisþætti, svo sem sjávardýpi, hitastig, seltu, botnstrauma og togveiðiálag.
Eintak af svampdýrategundinni Chondrocladia (Chondrocladia) grandis (Verrill, 1879), um 15 cm á hæð. Tegundin lifir ránlífi sem veiðir smærri dýr sér til matar með því að festa þau við límkennt yfirborðið sem einnig er alsett króknálum. Myndin er tekin í Grænlandssundi og er úr safni Hafrannsóknastofnunar.
Stórvaxnir svampar þekja allstór svæði á sjávarbotni og mynda þar sérstaka vistgerð, svonefndan svampabotn eða „ostabotn“. Slíkar vistgerðir fóstra tegundarík dýrasamfélög sem gegna mikilvægu hlutverki í vistkerfi sjávar. Stærstu svampdýrin geta orðið yfir 1 m í þvermál (t.d. Geodia barretti). Slíkur stórsvampabotn er víða áberandi suður og vestur af landinu, einkum meðfram landgrunnsbrúninni: ríkjandi tegundir þar eru Geodia barretti, Geodia macandrewi, Geodia atlantica, Geodia phlegraei, Stryphnus fortis og Stelletta normani. Í kaldari sjó norðaustur og austur af landinu og í Grænlandssundi eru aðrar tegundir ríkjandi: Geodia mesotriaena, Geodia parva, Stelletta rhaphidiophora og Schaudinnia rosea.
Sennilega er tilveru stórsvampa einna mesta ógnað af botnskarki með veiðarfærum. Rannsóknir á lífríki á malarbotni og hörðum botni sýna skerta tegundafjölbreytni og að lítið er af stórsvömpum á togslóð, samanborið við nálæg svæði sem eru laus við botnskark. Viðkvæmastir eru stórvaxnir og stífir svampar, sem rifna upp eða brotna við að lenda í veiðarfærum. Á ósnortnum botni hafa botntroll fyllst af ,,osti“.
Í gagnagrunni Hafrannsóknastofnunarinnar eru upplýsingar um að stórsvampar í afla hafi verið allt að 15 til 20 tonn. Togveiðarfæri geta þyrlað upp töluverðu magni af gruggi sem skerðir verulega lífslíkur svampa. Næringarnám þeirra byggist á því að dæla sjó í gegnum skrokkinn eftir örfínum rásum og sía smágerðar fæðuagnir úr sjónum. Fíngert grugg getur hæglega stíflað síunarkerfi svampa svo þeir þrífast illa eða drepast. Lítið er vitað hvort eða hversu langan tíma það tekur stórsvampa vaxa upp í fyrri stærð, en líklegast tekur það áratugi eða aldir.
Þekking á tegundafjölbreytni, magni og útbreiðslu svampdýrategunda, jafnt stórra sem smárra, er einn af þeim fjölmörgu þáttum sem líta þarf til við sjálfbæra nýtingu á auðlindum sjávar.