Ljósátutegundin agga. Mynd tekin með svifsjá.
Út er komin grein sem fjallar um sýnatöku á ljósátu með svonefndum Bongo-háfum. Greinin birtist í tímaritinu „Journal of Plankton Research“ og höfundar eru þau Ástþór Gíslason, Hildur Pétursdóttir og Páll Reynisson. Gögnunum sem liggja til grundvallar var safnað í rannsóknaleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar árið 2016.
Bongo-háfar eru tiltölulega einföld átusöfnunartæki, og vegna þess hversu meðfærilegir þeir eru, hafa þeir verið nýttir af fjölmörgum rannsóknastofnunum, m.a. Hafrannsóknastofnun, til að ná í átusýni. Óbreyttir eru þeir hins vegar ekki mjög hentugir til að safna stærri svifdýrum, eins og ljósátu, sem virðist ná að forðast háfana.
Í þessari rannsókn festum við einföld leifturljós á Bongo-háfa til að kanna hvort ljósin hefðu áhrif á veiðnina. Niðurstöðurnar gefa til kynna að með því að nota ljós fáist meiri afli sem gefur einnig réttari mynd af tegundasamsetningu og lengdardreifingu ljósátu en ef ljós hefðu ekki verið notuð. Ekki er talið að ljósátan laðist að leifturljósinu heldur er líklegt að ljósátan nái síður að forðast háfana ef ljósin eru notuð. Þannig geta niðurstöðurnar nýst í tengslum við rannsóknir á ljósátu í framtíðinni.
Hlekkur á greinina.