Mynd 1. Loðnutorfur (til vinstri) og ljósátutorfa (til hægri) með tíðnisvari úr yfirferð rs. Bjarna Sæmundssonar í haustleiðangri 2021.
Nú er uppi sú staða að útlit er fyrir að ekki náist að veiða úthlutaðar aflaheimildir á loðnuvertíðinni sem er nú á lokametrunum og fram hafa komið vangveltur um að útgefinn kvóti hafi mögulega verið of hár.
Í Fiskifréttum fimmtudaginn 17. mars og á www.mbl.is 19. mars er haft eftir Guðmundi Þ. Jónssyni skipstjóra á Vilhelm Þorsteinssyni EA 11 að hann sé „farinn að efast um að upphaflegar mælingar hafi gefið raunsanna mynd af stærð [loðnu]stofnsins“. Þar telur hann að „mikil áta í sjónum“ á þeim tíma hafi leitt til ofmats, „menn hafi einfaldlega álitið átuna loðnu“.
Hafrannsóknastofnun þakkar Guðmundi fyrir að vekja athygli á þessu máli en telur ekki ástæðu til að óttast að um ofmat af völdum ljósátu hafi verið að ræða, og enn síður hafi rauðáta blásið upp loðnumælinguna. Ástæður þess eru raktar hér.
Á mynd 1 eru sýnd dæmi um bergmálsrit loðnu og ljósátu úr yfirferð rs. Bjarna Sæmundssonar í haustleiðangri 2021. Svokallað tíðnisvar (relative frequency response) er sýnt á línuriti við hliðina á korti neðan við sjálft bergmálsritið. Hlutfall endurvarps valinna skráninga, sem sýndar eru með rauðu, er þar sýnt sem fall af tíðni. Fram kemur til vinstri að endurvarp loðnunnar er sterkast á 18 kHz tíðni, talsvert veikara á 38 kHz og ívið veikara á 120 kHz. Hægra megin er hinsvegar sýnd ljósátutorfa, og sýnir hún þveröfugt tíðnisvar, endurvarpið á 18 kHz og viðmiðunartíðninni 38 kHz er mun lægra en á 120 kHz. Hér skal þess getið að fleiri tíðnir eru í boði á rs. Árna Friðrikssyni.
Á mynd 2 er sýnt skematískt tíðnisvar mismunandi hópa og hvernig fiskar skilja sig frá átutegundum. Þessi tíðnisvör loðnu og ljósátu eru óyggjandi (Kang og félagar 2002, Fielding og félagar 2012) og því lítil hætta á ofmati af þessum sökum. Ennfremur er endurvarpsstyrkur ljósátu á 38 kHz alla jafna lágur, en loðnumælingin byggir á tegrun skráninga á þeirri tíðni. Auk þess er beitt þröskuldi við -70 dB (desíbel) sem útilokar veikt endurvarp frá t.d. átu. Byggt á reynslu úr samstarfi um loðnumælingar undanfarna vetur má benda á að hægt væri að bæta greiningarhæfni bergmálstækja uppsjávarskipa ef þau væru búin fleiri tíðnum.
Mynd 2. Tíðnisvar (frequency response, sem hlutfall af endurvarpi á 38 kHz) mismunandi hópa að hausti. Fisktegundir bláar (loðna, síld, ískóð), ljósátutegundir grænar (augnsíli) og rauðar (náttlampi). Byggt á flokkun bergmáls í haustleiðöngrum.
Í þessu samhengi er rétt að ítreka það sem áður hefur komið fram í fréttatilkynningum Hafrannsóknastofnunar og í ráðgjafarskjali, að mikill munur var á milli mælinga á stærð hrygningarstofns loðnu í september 2021 (1834 þús. tonn) og í janúar/febrúar 2022 (1213 þús. tonn að meðtöldum afla fram að mælingu). Mögulegar ástæður fyrir þessum mun hafa einnig verið ræddar, en sú veigamesta er óvenju mikil óvissa á kynþroskamati í haustmælingunni sem skapaði meiri óvissu í mati á stærð hrygningarstofnsins en alla jafna. M.ö.o., árgangurinn frá 2019 sem bar uppi veiðina á yfirstandandi vertíð er án efa stór, en mikil óvissa er um hve stór hluti hans hrygnir/hrygndi í vor.
Aðrir þættir kunna að skýra mun haust- og vetrarmælinga svo sem breytilegur endurvarpsstyrkur loðnu. Í því sambandi má nefna að Hafrannsóknastofnun hefur nýlega hafið kortlagningu á endurvarpsstyrk loðnu, m.a. með tillliti til dýpis og árstíma.
Með þeirri aflareglu sem nú er í gildi hefur tíðkast að nota niðurstöður fyrirliggjandi mælinga á stærð hrygningarstofnsins sem grundvöll að lokaráðgjöf stofnunarinnar um aflamark. Því voru báðar þessar mælingar notaðar.
Á rýnifundi um stofnmat á loðnu hjá Alþjóðahafrannsóknaráðinu sem mun fara fram á Íslandi í júní næstkomandi verður núverandi aflaregla skoðuð og endurmetin.
Heimildir
Myounghee Kang, Masahiko Furusawa, Kazushi Miyashita. Effective and accurate use of difference in mean volume backscattering strength to identify fish and plankton, ICES Journal of Marine Science, Volume 59, Issue 4, 2002, Pages 794–804, https://doi.org/10.1006/jmsc.2002.1229
Sophie Fielding, Jonathan L. Watkins, Martin A. Collins, Peter Enderlein, Hugh J. Venables. Acoustic determination of the distribution of fish and krill across the Scotia Sea in spring 2006, summer 2008 and autumn 2009, Deep Sea Research Part II: Topical Studies in Oceanography, Volumes 59–60, 2012, Pages 173-188, ISSN 0967-0645, https://doi.org/10.1016/j.dsr2.2011.08.002