Myndin sýnir 230 m háan og 7.5 km langan berggang á 2.500 m dýpi.
Í leiðangri sem farinn var í júní kortlögðu leiðangursmenn á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni alls 28.242 km2 af hafsbotni djúpt suður af landinu, í Íslandsdjúpi. Þetta er stærsta samfellda svæðið sem fram til þessa hefur verið mælt með fjölgeislamæli í einum og sama leiðangri í íslenskri efnahagslögsögu.
Hafsbotn þessa nýkannaða svæðis er að mestu þakinn seti sem safnast hefur þar fyrir með ýmsu móti í rás tímans. Fljótt á litið virðist stór hluti botnsins vera frekar sléttur og átakalítill en öldur, setstallar og miklir farvegir setja svip á stór svæði og stöku berggangar rísa upp úr setinu. Myndir 1 og 2. Innfelld mynd sýnir 230 m háan og 7,5 km langan berggang á 2.500 m dýpi.
Mynd 1. Yfirlit fjölgeislamælinga Hafrannsóknastofnunar, frá árinu 2000 og fram til 21. júní 2018. Alls liðlega 145 þús. km2.
Mynd 2. Þekja fjölgeislamælinga í leiðangri A8-2018 í Íslandsdjúpi, 28.242 km2. Dýptarbil er frá 1.850 m (rautt) niður á um 2.800 m (blátt)
Samhliða fjölgeislamælingum voru gerðar jarðlagamælingar (setþykktarmælingar) sem sýna afstöðu setlaga nokkra tugi metra niður fyrir hafsbotninn. Mynd 3.
Mynd 3. Lagskipt setlög undir hafsbotni í Íslandsdjúpi.
Á austanverðu mælingasvæðinu kom fram meginfarvegur Íslandsdjúpsins, Maury farvegurinn, kenndur við bandaríska haffræðinginn og frumkvöðulinn Matthew Fontaine Maury (1806-1873). Í þessum meginfarvegi sameinast væntanlega margir farvegir sem ganga út frá rótum íslenskra landgrunnsins. Margir þeirra hafa verið kortlagðir í fyrri fjölgeislamælingum Hafrannsóknastofnunar sem hófust á Kötluhryggjum aldamótaárið 2000. Þar eru miklir farvegir eða gljúfur sem ganga út frá landgrunnsbrúninni, kennd við Reynisdjúp og Mýrdalsjökul. Mikið og fallegt kerfi farvega var einnig kortlagt á síðasta ári í landgrunnsrótum suðaustur af landinu. Mynd 4.
Mynd 4. Farvegir í rótum landgrunnshlíðar suðaustan Íslands úr leiðangri A9-2017. Dýptarbil er frá 500 m (rautt) niður í um 1.800 m (dökkbleikt).
Leiðangur Árna Friðrikssonar stóð yfir 4.-21. júní sl. og er sá fyrri sem farinn verður í sumar í átaksverkefni Hafrannsóknastofnunar um kortlagningu hafsbotnsins í efnahagslögsögu Íslands. Markmiðið er að afla þekkingar sem nýtast mun á ýmsan hátt og er forsenda frekari vísindarannsókna við nýtingu, vernd og rannsóknir auðlinda í hafinu, á hafsbotni og undir hafsbotni.
Skilyrði til mælinga nú voru lengst af mjög góð í Íslandsdjúpi en síðustu dagar leiðangursins voru nýttir til mælinga á 1.378 km2 í Jökuldjúpi. Mynd 1, innan hrings. Þar eru jökulmenjar áberandi en einnig aragrúi af holum (e. pockmarks) á mjúkum botni. Holurnar eru væntanlega til vitnis um einhvers konar uppstreymi úr setlögunum.
Heildarflatarmál fjölgeislamælinga, í þessum í leiðangri suður undir 200 mílna mörkum lögsögunnar og í Jökuldjúpi, var því 29.620 km2.
Leiðangursstjóri var Guðrún Helgadóttir og skipstjóri Ingvi Friðriksson.