Ný skýrsla um vöktun vegna áhrifa sjókvíaeldis á íslenska laxastofna 2023

Villtur lax (ofar) og eldislax (neðar) í teljaranum í Langadalsá í byrjun september 2023. Villtur lax (ofar) og eldislax (neðar) í teljaranum í Langadalsá í byrjun september 2023.

Ný skýrsla um vöktun vegna áhrifa sjókvíaeldis á íslenska laxastofna 2023

Út er komin ný skýrsla á vegum Hafrannsóknastofnunar sem ber heitið „Samantekt vöktunar vegna áhrifa sjókvíaeldis á íslenska laxastofna 2023“, sjá hér.

Í skýrslunni kemur fram að samhliða auknu eldi á laxi í sjókvíum fylgi því áhættur sem taldar eru geta ógnað stöðu villtra laxastofna hér á landi, t.d. erfðablöndun. Settur hefur verið aukinn kraftur í vöktun vegna áhrifa sjókvíaeldis á íslenska laxastofna sem skipta má niður í nokkra þætti; vöktun með fiskteljurum, greiningu meintra strokulaxa úr eldi í ám, uppruna-greiningu laxa með hreisturrannsóknum og rannsóknir á erfðablöndun. Í skýrslunni er gerð grein fyrir þessum þáttum ásamt helstu niðurstöðum rannsókna fram til ársins 2023.

Sú samantekt vöktunar sem greint er frá í skýrslunni er sú fjórða sem tekin hefur verið saman frá því umfang laxeldis í sjókvíum fór að aukast hér við land. Því hefur nokkur reynsla skapast varðandi umfang og aðferðir vöktunarinnar.


Mikil ásækni kynþroska eldislaxa í ár

Árið 2023 var mjög frábrugðið fyrri árum og einkenndist af stroki laxa úr kví í Kvígindisdal í Patreksfirði síðla ágústmánaðar. Áætlaður fjöldi laxa í því stroki var um 3500 fiskar. Fljótlega eftir strokið fór að bera á göngu eldislaxa í ár en kynþroska laxar leita í ár til að hrygna og þannig ljúka sínum lífsferli. Við skoðun á kynþroska laxa frá sama kvíastæði og strokið var úr, kom í ljós að um 35% laxanna sýndu merki um kynþroska, sem er líkleg skýring mikillar ásækni strokufisks í laxveiðiár árið 2023.

Á haustmánuðum 2023 skiluðu 465 sýni af meintum strokulöxum sér til Hafrannsóknastofnunar. Af þeim reyndust 440 vera úr eldi og þar af voru 421 úr strokinu í Kvígindisdal í Patreksfirði. Fjöldi sýna haustið 2023 var rúmlega þrisvar sinnum meiri en samanlagt hafði borist Hafrannsóknastofnun í níu ár þar á undan og rúmlega sex sinnum meiri en árið 2014 sem var fyrra metár.

Til að draga úr líkum á að eldislaxar næðu að hrygna ákvað Fiskistofa að setja af stað mótvægisaðgerðir. Þær fólust í heimild til handa veiðifélögum til að freista þess að veiða eldisfiska auk þess að lokað var fyrir gönguleiðir laxa í sumum tilfellum. Auk þess voru fengnir sérfræðingar í yfirborðs-köfun frá Noregi sem leituðu uppi eldislaxa og fjarlægðu úr ám.

Mótvægisaðgerðir skiluðu árangri

Ljóst er að talsverður árangur varð af þessum mótvægisaðgerðum. Þó á enn eftir að koma í ljós í hversu miklum mæli og hvar eldislaxar náðu að hrygna en stefnt er því að veiða vorgömul seiði haustið 2024 til að fá mat á hrygningu strokulaxa, viðkomu þeirra og blöndun við villta laxastofna.

Greining erfðaefnis þeirra laxa sem bárust voru gerðar hjá MATÍS og greiningar á uppruna hjá Hafrannsóknastofnun. Til að greina uppruna var erfðaefni strokulaxa borið saman við sýni af foreldrafiskum (hængum) sem notaðir hafa verið til undaneldis. Sú tilhögun að safna og varðveita erfðaupplýsingar foreldrafiska, sem kveðið er á um í reglugerð um fiskeldi, er afar mikilvæg til að rekja strokufiska og rannsaka umfang og áhrif eldislaxa á villta laxastofna.

Af þessu stroki má sjá mikilvægi þess að í laxeldi sé fylgst með kynþroska fiska og að mótvægisaðgerðum með ljósastýringu sé beitt á eldisferlinum. Í framhaldi af þessum atburði var reglugerð um fiskeldi breytt 1. maí síðastliðinn með ákvæðum um ljósastýringu og vöktun á kynþroska.

Ganga villtra laxa í ár hér á landi hefur farið minnkandi á undanförnum árum og því má búast við að ef laxar strjúka úr eldi og ná að hrygna í ám verði áhrif innblöndunar hlutfallslega meiri en ef hrygningarstofnar villtra laxa væru stórir. Því er mikilvægt að styrkja villta stofna til að auka viðnámsþrótt þeirra.

Nánari upplýsingar veitir Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri Ferskvatns- og eldissviðs Hafrannsóknastofnunar í síma 840 6306.

Mynd sem fylgir er úr skýrslunni. Þar má sjá villtan lax (ofar) og eldislax (neðar) í teljaranum í Langadalsá í byrjun september 2023.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?