Áætlaðar leiðarlínur rannsóknaskipanna Bjarna Sæmundssonar (bláar línur) og Árna Friðrikssonar (grænar línur) við loðnurannsóknir næstu þrjár vikur. Búast má við að breyta þurfi leiðarlínum og yfirferð til að aðlagast aðstæðum t.d. vegna hafíss, veðurs og fleira.
Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson héldu í gær í árlegan haustleiðangur til rannsókna á loðnu en um er að ræða samstarfsverkefni Íslands og Grænlands. Meginmarkmiðið leiðangursins er mæling á stærð veiðistofns (kynþroska loðna sem ætla má að komi til hrygningar 2022) og mæling á magni ungloðnu (eins árs ókynþroska loðna sem verður uppistaðan í veiðistofni 2022-2023). Auk þess verða stundaðar umhverfis- og vistfræðirannsóknir í leiðangrinum sem snúa meðal annars að því að skoða tengsl umhverfisþátta og hafstrauma við útbreiðslu og göngur loðnu ásamt því sem útbreiðsla og mergð svifdýra verður skoðuð m.a. með tilliti til fæðuöflunar loðnu.
Rannsóknasvæðið verður í vestanverðu Íslandshafi, Grænlandssundi og þaðan suðvestur með grænlenska landgrunninu þar til komið er um 100 mílur vestur fyrir Angmagssalik, en einnig verður farið norðaustur með grænlenska landgrunninu norður að Shannon eyju sem er við 75°N.
Að þessu sinni fer rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson fyrir hönd Hafrannsóknastofnunar en Grænlendingar leigja rannsóknaskipið Árna Friðriksson af Hafrannsóknastofnun til þátttöku í verkefninu. Hægt verður að fylgjast með staðsetningu og ferli skipanna á https://skip.hafro.is/.
Áætlað er að Bjarni Sæmundsson verði 17 daga en Árni Friðriksson 19 daga og að sigldar verði samtals um 7000 sjómílur. Strax að loknum leiðangri og úrvinnslu gagna verður gefin út ný ráðgjöf um veiðar á loðnu fiskveiðiárið 2021-2022 en jafnframt verður um mánaðarmótin nóvember-desember gefin ráðgjöf um upphafsaflamark fyrir vertíðina 2022-2023.