Íslenskir hnúfubakar hefja árið 2022 með miklum ferðalögum

Mynd 1. Myndir af 10 hnúfubökum sem sáust við Grænhöfðaeyjar snemma árs 2022. Athugið að þessar mynd… Mynd 1. Myndir af 10 hnúfubökum sem sáust við Grænhöfðaeyjar snemma árs 2022. Athugið að þessar myndir eru í eigu BIOS Cabo Verde Association (https://bioscaboverde.com/ ) og óheimilt er að dreifa þeim án þeirra leyfi.

Hnúfubakur er sú hvalategund sem jafnan vekur mestu athygli meðal almennings einkum sökum atferli síns. Þrátt fyrir það er margt sem við vitum ekki um atferli þeirra. Þeir ferðast langar vegalengdir ár hvert, frá heitum sjó í Karabíska hafinu eða vesturströnd Afríku þar sem kálfar þeirra fæðast, norður á fæðuslóðir t.d. við Ísland, Grænland, Noreg, og Kanada. Upplýsingar um far hvala má fá frá merkingum með gervihnattasendum en einnig frá greiningum ljósmynda. Unnt er að greina einstaklinga af myndum af sporði og þannig rekja ferðir hvalanna út frá myndum teknum á mismunandi stöðum.

Í þessari viku fékk sérfræðingur okkar í greiningu ljósmynda af hvölum, Valerie Chosson, myndir frá Grænhöfðaeyjum, en fyrstu hnúfubakar ársins eru byrjaðir að sjást við eyjarnar en þar eru mikilvæg uppvaxtarsvæði fyrir kálfa.

Myndir af 10 hvölum (mynd 1) voru greindar og bornar saman við myndabanka Hafrannsóknastofnunar af hnúfubökum (ÍSland Megaptera Novaeangliae – ISMN) og reyndust tveir hafa verið myndaðir áður við Ísland, nánar tiltekið í Skjálfanda við Húsavík (myndir 2 og 3).

Þessar niðurstöður auk fleiri athugana byggðum á ljósmyndabankanum sem sýna þessar löngu ferðir hnúfubaka verða m.a. kynntar á ráðstefnu um sjávarspendýr (SMM2022) í sumar.

Myndirnar sem eru notaðar við þessar rannsóknir koma frá vísindamönnum, almenningi, hvalaskoðunarfyrirtækjum og ýmsum samtökum í löndum að Atlantshafi, og geta veitt verðmætar upplýsingar um far hnúfubaka með litlum tilkostnaði. Myndir úr einum slíkum myndabanka (NAHWC) hafa t.d. verið notaðar til að greina yfir 10.000 einstaklinga. Í dag hefur myndabanki Hafrannsóknastofnunar myndir af yfir 1600 hnúfubökum sem má nota í þessum tilgang, sem eru allt frá árinu 1980 til dagsins í dag.

Ef þú hefur tekið myndir af hnúfubökum eða öðrum hvölum þá viljum við gjarnan fá þær. Frekari upplýsingar má finna hér: https://www.hafogvatn.is/en/research/whale-research/whale-photo-id/submit-photo-1

Mynd 2. Hnúfubakur ISMN1298 við Húsavík 2017 (efri mynd) og við Grænhöfðaeyjar 2022 (neðri mynd). 

Mynd 3. Hnúfubakur ISMN0257 við Húsavík 2013 (efri mynd) og við Grænhöfðaeyjar 2022 (neðri mynd).


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?