Ísland með formennsku í níu vinnunefndum ICES

Formenn vinnunefnda ICES á fundi í Kaupmannahöfn í síðustu viku. Formenn vinnunefnda ICES á fundi í Kaupmannahöfn í síðustu viku.

Nýverið lauk fundi formanna vinnunefnda Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) þar sem vinna nefndanna var skipulögð og framtíðarsýn var rædd. Á þessu ári gegnir Ísland formennsku í níu vinnunefndum en aldrei áður hafa íslenskir vísindamenn stýrt jafn mörgum nefndum ICES á sama tíma.

Á hverju ári er stofnmat helstu nytjastofna við Ísland tekið fyrir á vettfangi ICES. Í vinnunefnd um uppsjávarfiska, WGWIDE, er m.a. er fjallað um norsk-íslenska síld, makríl og kolmunna og er formaður hennar Guðmundur J. Óskarsson sérfræðingur á uppsjávarlífríkissviði. Innan ICES eru einnig starfandi vinnuhópar fyrir mismunandi hafsvæði um framtíðarmöguleika á aukinni vistfærðilegri stjórnun fiskveiða. Í þeirri vinnunefnd sem fjallar um Noregshaf (WGINOR) er Guðmundur einnig formaður ásamt Per Arneberg frá Noregi.

Innan Norðvestur vinnunefndarinnar, NWWG, er fjallað um helstu íslensku botnfiskastofnana eins og þorsk, ýsu, ufsa, karfa og grálúðu, auk sumargotssíldar og loðnu. Jafnframt er fjallað um nytjastofna í Færeyjum og Grænlandi í nefndinni sem leidd er af Kristjáni Kristinssyni, sérfræðingi á botnsjávarlífríkissviði. Auk NWWG leiðir Kristján, ásamt Benjamin Planque frá Noregi, vinnunefndina WGIDEEPS sem skipuleggur og sér um framkvæmd rannsóknaleiðangra á úthafskarfa í Grænlandshafi og Noregshafi.

Djúpsjávarnefnd ICES (WGDEEP) fjallar um djúpfiska allt frá Azoreyjum til Barentshafs og þar er m.a. fjallað um stofnmat keilu, löngu, blálöngu og gulllax við Ísland. Nefndina leiða þeir Guðmundur Þórðarson sviðsstjóri botnsjávarlífríkisssviðs ásamt Pascal Lorance frá Frakklandi. Guðmundur tók jafnframt við stjórn ráðgjafanendar um brjóskfiska, ADGEF, í ár auk þess sem hann stýrir rýnifundi um stofnmat karfa í Barentshafi (WKRED-2018).

Vinnunefnd ICES um veiðarfærarannsóknir og atferli fiska, WGFTFB, fjallar um mælingar og hönnun veiðarfæra, hvort sem er til fiskveiða eða til rannsókna og atferli fiska í kringum veiðarfæri. Haraldur A. Einarsson sérfræðingur á botnsjávarlífríkissviði er formaður nefndarinnar fyrir hönd ICES ásamt Pingguo He fyrir FAO.

Í vinnunefndinni WGECO eru tekin fyrir margvísleg málefni sem tengjast vistfræðilegri nálgun og áhrifum veiða á vistkerfið. Nefndin hefur verið að þróa mælikvarða til að meta ástand vistkerfisins. Stefán Á. Ragnarsson sérfræðingur á botnsjávarlífríkissviði stýrir þeirri nefnd ásamt Jeremy Collie frá Bandaríkjunum.

Auk þess að leiða ofangreindar vinnunefndir taka sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar þátt í mörgum vinnunefndum ICES sem fjalla um flesta þætti hafrannsókna eins og haffræði, vistfræði átu, stofnmatsaðferðir sem og í rýni- og ráðgjafafundum.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?