HNÚFUBAKUR ISMN0122 KEMUR TIL DÓMINÍSKA LÝÐVELDISINS Í JANÚAR 2020

mynd af fyrsta sporði 2020

Alþjóðleg samvinna, sérstaklega varðandi fartegundir eins og hnúfubak er sérlega mikilvæg. Hnúfubakar í Norður-Atlantshafi eyða sumrinu á norðlægum slóðum við fæðuöflun á hafsvæðinu frá Íslandi til Noregs. Á veturna halda þeir suður á bóginn á æxlunarstöðvarnar nærri miðbaug allt frá Karíbahafi austur að Grænhöfðaeyjum.


Fyrsti hvalur vetrarins við Cape Samana eyju í Dóminíska lýðveldinu sást og var ljósmyndaður þann 6. janúar s.l. af sjómanninum Leonardo Hernandez Balbuena. Myndinni deildi svo Eva Reznickova á Fésbókarsíðu tileinkaðri hnúfubökum sem Valerie Chosson starfmaður Hafrannsóknastofnunar vaktar einnig. Með samanburði við ISMN gagnagrunn stofnunarinnar (íslenski Megaptera novaengliae - íslenski hnúfubaks gagnagrunnurinn) gat hún, þrátt fyrir að upphaflega myndin væri fremur óskýr, greint að hér var á ferðinni hnúfubakur ISMN0122.

Þetta dýr greindist síðast með öruggum hætti hér við land 2016 þegar Charlie Lavin nemandi við stofnunina greindi dýrið.

myndir af hvalasporðum

ISMN gagnagrunnurinn sem er í umsjón Valerie Chosson og Gísla Arnórs Víkingssonar á Hafrannsóknastofnun, samanstendur af yfir 1000 greindum einstaklingum sem myndaðir hafa verið í hinum ýmsu leiðöngrum í kringum landið á vegum stofnunarinnar, samstarfsaðilum hennar og einstaklingum allt frá því um 1980 til dagsins í dag. Hafrannsóknastofnunin vill þakkar öllum sem lagt hafa til efni í gagnagrunninn.

Hvala ljósmyndagagnagrunnur Hafrannsóknastofnunar


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?