Mynd úr safni Hafrannsóknastofnunar.
Gísli Arnór Víkingsson, starfsmaður Hafrannsóknastofnunar til áratuga var bráðkvaddur á Ítalíu þann 18. júlí síðastliðinn þar sem hann var staddur í fríi með fjölskyldu sinni. Útför Gísla fer fram frá Hallgrímskirkju föstudaginn 12. ágúst kl. 13 og verður starfsstöð Hafrannsóknastofnunar í Hafnarfirði lokuð frá hádegi þann dag.
Gísli lauk líffræðinámi frá Háskóla Íslands árið 1979, cand. scient gráðu frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1985 og varði doktorsritgerð sína frá Háskólanum í Tromsø árið 2016. Doktorsritgerð hans fjallaði um langtímabreytingar í útbreiðslu, stofnstærð og fæðuvistfræði skíðishvala á hafsvæðinu umhverfis Ísland og aðliggjandi svæðum og hvort þær breytingar væru afleiðingar loftslagsbreytinga.
Gísli hóf störf hjá Hafrannsóknastofnun árið 1986 en þá var verið að auka mjög við hvalarannsóknir sem krafðist fleiri líffræðinga. Árið 1998 fékk Gísli það verkefni að stýra hvalarannsóknunum stofnunarinnar sem hann svo gerði með miklum sóma allt til dauðadags. Gísli vann því að hvalarannsóknum allan sinn starfsferil hjá Hafrannsóknastofnun og ávann sér bæði virðingu og traust samstarfsmanna sinna, hvort heldur sem var innanlands eða erlendis.
Sem helsti sérfræðingur Íslands um hvali var Gísli fulltrúi Íslands í mörgum nefndum og ráðum er fjölluðu um hvali og hvalveiðar. Hann var m.a. fulltrúi Íslands í vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) og Norðaustur-spendýraráðinu (NAMMCO) auk þess sem hann var helsti ráðgjafi stjórnvalda á ársfundum samtakanna. Gísli var einnig formaður vísindanefndar NAMMCO á árunum 2001-2003. Á starfsferli sínum átti hann sæti í eða stýrði ýmsum ráðum og nefndum innanlands og á alþjóðavettvangi. Hann var mjög afkastamikill við að koma niðurstöðum rannsókna á framfæri, bæði innanlands sem og í ritrýndar greinar í vísindatímaritum. Þannig kom hann að skrifum á 129 ritrýndum greinum, skrifaði yfir 40 bókarkafla bæði á ensku og íslensku, tugi ráðstefnupappíra auk annarra skrifa.
Gísli var ekki bara frábær vísindamaður. Hann var einnig einstök persóna í bestu merkingu þess orðs. Hann var hjartahlýr, skilningsríkur, stuðningsríkur, lífsglaður, húmoristi og átti mjög gott með að vinna með fólki enda leituðu margir til hans um ráð og leiðsögn. Hann var líka mikill tónlistarmaður og af öllum þeim tríóum, kvartetum og hljómsveitum sem hann spilaði með þekkjum við samstarfsmenn hans hann best af því að spila með Hafróbandinu, eða húsbandinu sem tróð reglulega upp á samkomum starfsmanna.
Skarð það sem Gísli lætur eftir sig hjá Hafrannsóknastofnun er stórt og okkar missir er mikill en minningin um góðan félaga lifir í hjörtum okkar allra.
Eiginkona Gísla var Guðrún Ögmundsdóttir, alþingismaður og félagsráðgjafi. Hún lést á gamlársdag 2019 eftir erfið veikindi. Börn þeirra eru Ögmundur Viðar Rúnarsson og Ingibjörg Helga Gísladóttir. Samstarfsmenn Gísla hjá Hafrannsóknastofnun votta Ögmundi, Ingibjörgu og öðrum aðstandendum innilegrar samúðar.
Þorsteinn Sigurðsson