Bráðabirgðatölur fyrir stangveiði á laxi sumarið 2018

Bráðabirgðatölur fyrir stangveiði á laxi sumarið 2018

Heildar fjöldi veiddra laxa sumarið 2018 var um 46.000 fiskar, sem er litlu minna en veiddist sumarið 2017 og yfir meðalveiði sl. 44 ára. Í öllum landshlutum varð aukning frá árinu á undan, að Norðurlandi frátöldu, þar sem veiði minnkaði frá 2017.

Laxveiðitímabilinu er nú lokið í flestum ám landsins. Enn er þó veitt í ám þar sem uppistaðan í veiðinni er lax úr sleppingum gönguseiða, en þar stendur veiði til 20. október.  Bráðabirgðatölur yfir stangveiði á laxi sýna að alls veiddust um 46.000 laxar (1. mynd) sem er um 9% yfir langtímameðaltali áranna 1974-2017. Veiðin 2018 var um 650 löxum minni en hún var 2017. Í tölum um heildarlaxveiði eru taldir villtir laxar, laxar sem upprunnir eru úr sleppingum gönguseiða og einnig þeir laxar sem er sleppt aftur í stangveiði (veitt og sleppt). 

Mynd 1. Stangveiði í íslenskum ám frá 1974 - 2018. Veiðinni er skipt í landaðan afla (blátt), veitt og sleppt (grænt) og veiði úr sleppingum gönguseiða (rautt). Tölur frá 2018 eru bráðabirgðatölur.

Mynd 1. Stangveiði í íslenskum ám frá 1974 - 2018. Veiðinni er skipt í landaðan afla (blátt), veitt og sleppt (grænt) og veiði úr sleppingum gönguseiða (rautt). Tölur frá 2018 eru bráðabirgðatölur.

 

Laxar úr gönguseiðasleppingum eru viðbót við náttúrulega framleiðslu ánna og þegar veitt er og sleppt í stangveiði veiðast sumir fiskar oftar en einu sinni. Þegar litið er til veiða á villtum laxi að teknu tilliti til endurveiddra laxa er líklegt að heildarstangveiðin hefði orðið um 31.000 laxar, sem er undir meðalveiði villtra laxa. (2. mynd). Veiði í ám á Suðvesturlandi (Reykjanes), Vesturlandi, Vestfjörðum og Austfjörðum var meiri en árið 2017, en hélst svipuð á Suðurlandi (3 mynd). Veiði dróst saman á Norðurlandi eystra og Norðurlandi vestra. Laxveiðin sumarið 2018  var fremur jöfn yfir veiðitímann og aðstæður til veiða almennt góðar.

Mynd 2. Stangveiði í íslenskum laxveiðiám þegar laxveiði í hafbeitarám er undanskilin og leiðrétt hefur verið fyrir áhrifum veiða og sleppa.

Mynd 2. Stangveiði í íslenskum laxveiðiám þegar laxveiði í hafbeitarám er undanskilin og leiðrétt hefur verið fyrir áhrifum veiða og sleppa. 

 

Vísbendingar eru um að minni laxgengd á Norðurlandi megi rekja til lítils hrygningarárgangs 2012. Sá árgangur hefur mælst liðfár í seiðamælingum og einnig við sjávargöngu þess árgangs vorið 2017. Það er sá árgangur sem var undirstaðan undir smálaxaveiði á Norðurlandi sumarið 2018. 

Dánartala laxa í sjó hefur hækkað við Norður-Atlantshaf á síðustu áratugum. Ástæður þess eru ekki þekktar og mikilvægt að leita frekari svara við því. Þegar dánartala hækkar ná færri fiskar sem ganga út sem gönguseiði að snúa til baka sem fullorðinn lax. Vísbendingar um að seiðaframleiðsla í ám hér á landi hafi almennt aukist, sem vegur á móti lægri endurheimtum. Aukningu í þéttleika seiða má að talsverðu leyti rekja til aukins fjölda laxa sem sleppt er í stangveiði sem skilar stærri hrygningarstofnum að hausti.

3. mynd. Stangveiði á laxi sumarið 2018 skipt eftir landshlutum. Á Suðurlandi er gerður greinarmunur á veiði á villtum laxi (blátt) og laxi úr hafbeitarám (rautt).

3. mynd. Stangveiði á laxi sumarið 2018 skipt eftir landshlutum. Á Suðurlandi er gerður greinarmunur á veiði á villtum laxi (blátt) og laxi úr hafbeitarám (rautt).

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?