Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir
Hafrannsóknastofnun hefur, að gefnu tilefni, endurskoðað tímaröð landana grásleppu sem notuð er við ákvörðun vísitölu veiðihlutfalls við fiskveiðiráðgjöf. Tveimur aðalatriðum var breytt við umreikning tunnufjölda í magn óslægðarar grásleppu fyrir árabilið 1985-2007:
- Samband hrognamagns og tunnufjölda á vertíð í veiðidagbókum var leiðrétt.
- Meðal hrognaprósenta (GSI) sem gengið var út frá við umreikninginn var lækkuð lítillega samkvæmt viðameiri gögnum, eða úr 30.5 í 29.4%.
Auk þessara tveggja atriða var 20% „sullprósenta“ sem Fiskistofa dregur frá hrognamagni við skráningu í gagnagrunn, lögð aftur ofan á landanir hrogna fyrir árin 2008-2016. Samanlagt leiddi þetta til þess að meðalvísitala veiðihlutfalls sem miðað er við í ráðgjafarreglu hækkaði úr 0.67 í 0.75, eða aftur í fyrra horf ráðgjafarreglu sem stuðst hefur verið við árin 2012-2019. Miðað við þessar nýju forsendur hefur Hafrannsóknastofnun hækkað ráðlagðan heildarafla á grásleppuvertíðinni 2020 úr 4646 í 5200 tonn, og fyrir vertíðina 2021 hækkar upphafsráðgjöf úr 1459 í 1634 tonn. Í dag er heildarafli vertíðarinnar kominn í 5035 tonn samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu. Nánari upplýsingar um endurskoðun á tímaröð má lesa um í nýrri skýrslu Haf- og vatnarannsókna HV 2020-32 og einnig er ný ráðgjöf komin á vefinn undir: https://www.hafogvatn.is/static/extras/images/hrognkelsi_20201206817.pdf