Veiðieftirliti Hafrannsóknastofnunar lokið

Ásgeir Gunnarsson fiskifræðingur, síðasti veiðieftirlitsstjóri Hafrannsóknastofnunar, með eftirlitss… Ásgeir Gunnarsson fiskifræðingur, síðasti veiðieftirlitsstjóri Hafrannsóknastofnunar, með eftirlitssímann sem nú er þagnaður.

Með lagabreytingu sem samþykkt var á vorþingi færðist framkvæmd skyndilokana frá Hafrannsóknastofnun til Fiskistofu. Líkur þar með ríflega fjögurra áratuga sögu skyndilokana Hafrannsóknastofnunar.

Núverandi kerfi skyndilokana á Íslandsmiðum má rekja allt aftur til ársins 1976. Tilgangurinn með skyndilokun svæða er verndun smáfisks með það fyrir augum að draga úr smáfiskadrápi og líklegu brottkasti (Kristján Kristinsson o.fl. 2005). Fiskifræðingar á Hafrannsóknastofnun hafa staðið vaktir undanfarin ár og sett á skyndilokanir í kjölfar mælinga Fiskistofu og Landhelgisgæslu. Talsverðar sveiflur hafa verið í fjölda skyndilokana frá upphafi en flestar voru þær árið 2012 eða 188. Skyndilokunum fækkaði mikið á síðasta ári og það sem af er þessu ári vegna breytinga á viðmiðunarmörkum sem gerð var 2019. Frá upphafi hefur Hafrannsóknastofnun sett á um 3900 skyndilokanir, meirihluta til verndunar smáþorsks og flestar á línuveiðar. Síðustu vaktina í veiðieftirliti Hafrannsóknastofnunar stóð Ásgeir Gunnarsson fiskifræðingur og líkur þar með sögu veiðieftirlits stofnunarinnar. Fiskistofa mun nú annast framkvæmd skyndilokana en Hafrannsóknastofnun mun ráðleggja um fiskifræðilega þætti er varða skyndilokanir eins og viðmiðunarmörk og tímalengd lokanna.

 

Skyndilokanir Hafrannsóknastofnunar eftir tegundum 1976 - 2020

Þorskur Ýsa Ufsi Rækja Síld Annað
2534 701 176 150 146 193

 

Skyndilokanir Hafrannsóknastofnunar eftir veiðarfærum 1976 - 2020

Lína Botnvarpa Handfæri Flotvarpa Rækjuvarpa Annað
1594 1165 302 323 155 361

 

Þrátt fyrir að skyndilokanir hafi verið veigamikill þáttur í stjórnkerfi fiskveiða á Íslandsmiðum í áratugi, þá er fremur lítið um rannsóknir á áhrifum þeirra aðgerða. Nýverið kom hinsvegar út ritrýnd grein um áhrif skyndilokana við að hindra veiðar á smáfiski (Woods o.fél. 2018). Helsta niðurstaða greinarinnar er að skyndilokanir séu gagnlegar til verndar smáfiski þegar veiðhlutfall er hátt. Hinsvegar þegar veiðihlutfall er hóflegt, líkt og nú er á flestum bolfiskstofnum, hafa skyndilokanir takmarkað gildi. Meðal annars í því ljósi lagði Hafrannsóknastofnun til hækkun á viðmiðunarmörkum árið 2017 í tillögu til starfshóps um faglega heildarendurskoðun á regluverki varðandi notkun veiðarfæra, veiðisvæði og verndunarsvæði á Íslandsmiðum um breytingu á viðmiðunarmörkum. Stofnunin telur hinsvegar að skyndilokanir geti verið nauðsynlegar í vissum tilfellum og því ekki ráðlegt að fella öll mörk niður og hverfa frá lokunum svæða ef smár fiskur veiðist. Skynsamlegt er að hafa aðhald og stöðva veiðar á svæðum ef óhóflega er veitt af ungviði.

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?