Um veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir hrognkelsi

Bæði ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um veiðar á hrognkelsum og veiðistjórnun Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, hafa verið harðlega gagnrýnd undanfarna daga. Þess vegna telur Hafrannsóknastofnun ástæðu til að gera betur grein fyrir forsendum og annmörkum ráðgjafarinnar. Ráðuneytið hefur svarað gagnrýni á stjórnun veiðanna á öðrum vettvangi.

Varúðarnálgun og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar

Á hverju ári gefur Hafrannsóknastofnun út ráðgjöf fyrir um 40 stofna þar sem mest athygli beinist gjarnan að ráðgjöf stærstu stofnanna eins og þorsks, ýsu og loðnu.  Forsendur ráðgjafar eru ýmist hámarks afrakstur í þeim tilfellum sem hægt er að meta hann eða varúðarsjónarmið.  Yfirleitt er það þannig að þar sem mikið liggur fyrir af gögnum og vísindalegri þekkingu byggir ráðgjöfin á hámarks afrakstri.  Hinsvegar þar sem gögnin eru fátæklegri og minni þekking á framleiðslugetu stofns byggir ráðgjöfin á varúðarsjónarmiðum.  Ráðgjöf um nýtingu flestra þeirra stofna sem Hafrannsóknastofnun ráðleggur um byggir á varúðarsjónarmiðum og má þar nefna stofna eins og djúpkarfa, blálöngu, þykkvalúru og hrognkelsi.

Orðið varúðarnálgun er þýðing á „precautionary approach“ sem skilgreint var af Sameinuðu þjóðunum árið 1995.  Í lauslegri þýðingu er varúðarnálgun skilgreind á eftirfarandi hátt: „Ríki skulu sýna varúð þegar upplýsingar eru óvissar, óáreiðanlegar eða ófullnægjandi.  Skort á vísindalegum upplýsingum á ekki að nota sem ástæðu til að fresta eða grípa ekki til aðgerða til verndar eða stjórnunar".  Þetta þýðir að þegar upplýsingar um nytjastofna eru takmarkaðar þá mun ráðgjöfin verða varkárari en ella til að minnka möguleg neikvæð áhrif nýtingar.  Síðan varúðarnálgun var skilgreind hefur mikil vinna verið lögð í að útfæra hana nánar varðandi stjórnun á fiskveiðum. 

Ráðgjöf fyrir hrognkelsi

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um veiðar hrognkelsa byggir á vísitölum úr stofnmælingu botnfiska (togararalli) sem ná aftur til ársins 1985 og aflatölum fyrir sama tímabil (https://www.hafogvatn.is/is/veidiradgjof). Vísitala úr stofnmælingu er þannig notuð sem mælikvarði á þróun stofnstærðar. Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar miðast við að vísitala veiðihlutfalls sé svipuð og meðaltal áranna 1985–2019. Vísitala veiðihlutfalls er einfaldlega afli deilt með stofnvísitölu en þessi stærð gefur vísbendingu um veiðiálag.

Þar sem stofnvísitala hrognkelsa úr togararalli sveiflast mikið milli ára, er jafnframt í gildi sveiflujöfnun sem þýðir að vísitala fyrra árs gildir 30% á móti 70% vísitölu veiðiárs. Þessi sveiflujöfnun er einnig forsenda fyrir því að hægt sé að gefa ráðgjöf um upphafsaflamark þar sem stofnmæling á sér stað eftir að veiðitímabil grásleppu er hafið. Forsendur ráðgjafarreglunnar eru þær að miða við svipaða sókn í stofninn, þ.e.a.s. viðhalda svipuðu veiðihlutfalli, og á viðmiðunarárum ráðgjafarreglunnar. Líkt og áður var rakið þá kemur aflasaga inn í útreikninga á vísitölu veiðihlutfalls og því þarf að gera ráð fyrir að afli þessara ára sé þekktur. Frá og með árinu 2008 hefur grásleppuafli verið vigtaður en þar á undan er aflinn metinn út frá fjölda tunna af hrognum. Upplýsingar um fjölda tunna voru fengnar frá forsvarsmönnum Landsambands smábátaeigenda og reiknistuðullinn sem notaður hefur verið til að ákvarða heildarþyngd óslægðrar grásleppu sem þarf til að fylla tunnu af hrognum er byggður á upplýsingum úr afladagbókum 38-134 báta ár hvert eins og er útlistað í vísindagrein eftir James Kennedy og Sigurð Þ. Jónsson frá 2017.

Viðmiðunarár í veiðiráðgjöf stofnunarinnar sem gefin var út árin 2015-2019 voru tímabilið 1985-2011. Viðmiðunarárum var því fjölgað í ráðgjöfinni í ár þar sem bætt var inn árum (2012-2019) þar sem heildaraflinn kemur frá vigtun, og er því væntanlega áreiðanlegri en fyrir þau ár sem reikna þurfti heildarafla frá fjölda tunna. Þetta er mikilvægt að hafa í huga.

Gagnrýni á ráðgjöf og svör við henni

Það sem einkum hefur verið gagnrýnt að undanförnu eru forsendur reiknistuðulsins, sem stofnunin hefur byggt á frá árinu 2015, til að umreikna fjölda tunna yfir í landaðan heildarafla á ári. Hann er sagður of lágur og að aflinn hafi verið allt að 25% hærri en þær aflatölur sem Hafrannsóknastofnun leggur til grundvallar í útreikningi á vísitölu veiðihlutfalls fyrir árin 1985-2007. Þessi gagnrýni er byggð á gögnum nokkurra fiskvinnsla frá síðustu árum og hafa gögnin verið kynnt sérfræðingum stofnunarinnar lítillega á síðustu dögum. Það er mat stofnunarinnar að ekki séu forsendur fyrir að nota reiknistuðla fengna frá fullkomnum vinnslum í dag fyrir hrognatunnur fyrri ára þar sem tæknistigið var annað. Því telur Hafrannsóknastofnun ekki forsendur fyrir því að breyta ráðgjöfinni frá 1. apríl 2020 upp á 4646 tonn. Þessar upplýsingar eru samt sem áður þess eðlis að þær ber að skoða nánar, og í samhengi við eldra mat.  

Það eru önnur atriði sem ber líka að horfa til varðandi forsendur ráðgjafarinnar og styðja að henni verði ekki breytt. Í fyrsta lagi, þótt vísitölur úr stofnmælingu sveiflist á milli ára og hafi farið lítillega upp á við árið 2020, er vísitalan enn langt undir því sem hún var hæst á árunum 1985-1990 og eins er hún lægri en á tímabilinu 2002-2009. Það er því vísbending að sókn í stofninn sé síst of lítil og frekar vísbending um að ástand stofnsins sé lakara nú en áður. Hvort sem þessi tímabil mishárra stofnvísitalna skýrast af breytilegri framleiðni stofnsins og afkomuskilyrðum í hafinu eða af veiðum er ekki vitað. Hins vegar er mikilvægt að taka tillit til þeirra og að veiðiálag stjórnist af þeim.

Í öðru lagi, veiðar á nytjastofnum eiga að vera sjálfbærar, sem þýðir að ekki megi ganga á endurnýjunargetu þeirra. Hrognkelsi hrygna líklega flest einungis einu sinni á lífsleiðinni, en það er metið að 10-20% þeirra gætu náð að hrygna tvisvar. Þar sem gert er ráð fyrir því að jákvætt samband sé á milli nýliðunar og stærð hrygningarstofns hjá hrognkelsum, þá verða veiðarnar eftir 4-5 ár að einhverju leyti háðar því hve mikið af hrognkelsi nær að hrygna í ár. Verði veitt langt umfram ráðgjöf stofnunarinnar er framtíðarveiðum því teflt í tvísýnu. Í þriðja lagi, stofnmatið sem veiðiráðgjöf hrognkelsa byggir á er rallvísitala. Vísitalan er metin vera besti mælikvarðinn á þróun stofnstærðar sem völ er á. Engu að síður er óvissa í stofnmati hrognkelsa mikil og byggt á takmörkuðum gögnum samanborið við þau gögn sem eru á bak við stofnstærðarmat margra annarra nytjastofna við Ísland (t.d. þorskur, ýsa og síld). Hér er mikilvægt að átta sig á því að óvissa í gögnum um stærð stofna, leiðir til meiri varkárni í ráðgjöf. Þetta er leiðarljós varúðarnálgunarinnar sem lýst var að ofan og er grundvallaratriði í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og Alþjóðahafrannsóknaráðsins. 

Með hliðsjón af framansögðu er það ítrekað að Hafrannsóknastofnun telur ekki ástæðu til að breyta veiðiráðgjöf hrognkelsa á yfirstandandi vertíð. Stofnunin mun beita sér fyrir því að viðhalda góðu samstarfi við hagsmunaðila, hér eftir sem hingað til, og er eins og ávallt reiðubúin til að fara yfir forsendur stofnmats með þeim. Það er mikilvægt því markmið allra hlýtur að vera það sama, að hámarka afrakstursgetu stofnsins til lengri tíma litið með sjálfbærri nýtingu.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?