Svör við fyrirspurn frá Jóni Kaldal (The Icelandic Wildlife Fund) varðandi endurskoðun áhættumats erfðablöndunar

1. spurning:
Eru allir villtir íslenskir laxastofnar undir í matinu, eða aðeins þeir sem eiga heimkynni sín í laxveiðiám sem um hafa verið stofnuð veiðifélög lögum samkvæmt? Telja höfundar áhættumatsins ásættanlegt að villtir laxastofnar, sem ekki teljast nytjastofnar, verði fyrir spjöllum vegna erfðablöndunar við eldislax?

Svar:
Áhættumatið á við villta nytjastofna og er ein af stýribreytum í matinu, fjöldi hrygningarfiska sem er í þeim ám sem um ræðir. Fjöldi fiska hefur áhrif á líkur á göngu eldislaxa og er því nauðsynleg stærð þegar reikna á út hlutfall strokulaxa af heildargöngu í vatnsföll. Þessi fjöldi er þekktur í ám þar sem fiskteljarar eru til staðar og má áætla í ám með skráða veiði þar sem sýnt hefur verið fram á, að í flestum ám eru sterk tengsl á milli fjölda veiddra fiska og fiska í göngu. Áhættumati er ætlað að tryggja verndun villtra nytjastofna og koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á þeim, tryggja hagsmuni þeirra sem nýta stofnana og er í samræmi við markmið laganna og reglugerðarinnar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga um fiskeldi nr. 71/2008. Þá segir í 2. mgr. 1. gr. laganna að við framkvæmd þeirra skuli þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu.

Nytjastofn samkvæmt þeirri skilgreiningu, þarf ekki að vera erfðafræðilega einstofna, heldur eingöngu að vera í því magni að hann að þoli að þar sé stunduð sjálfbær veiðinýting. Samkvæmt tillögu sem Hafrannsóknastofnun gerði til þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis verður stofninn í viðkomandi á, að þola veiðiálag og miða skal við, að lágmarksmörk skráðrar veiði séu 50 fiska meðalveiði á samfelldu tíu ára tímabili.

2. spurning:
a) Hvaða ár liggja til grundvallar áhættumatinu?

Svar:
Byggt er á þeim ám sem hafa veiðiskráningu. Veiðitölur úr ám og vötnum eru teknar saman árlega og gefnar út í skýrslum sem má sjá á vef Hafrannsóknastofnunar. Árnar sem liggja til grundvallar eru sýndar í viðhengi. Smelltu á hlekk til að opna viðhengi.

b) Á hvaða forsendum hvílir val viðkomandi vatnsfalla?

Svar:
Í raun er ekki um val að ræða en byggt er á upplýsingum sem gefnar hafa verið um veiði. Veiðifélögum og veiðiréttarhöfum, þar sem veiðifélög eru ekki starfandi ber skylda til að skila upplýsingum um veiði samanber 13. gr. laga nr. 61/2006 en þar segir: Gera skal skýrslu um veiði í sérhverju veiðivatni og netlögum sjávarjarða og hvílir skylda til skýrslugjafar á handhafa veiðiréttar og sérhverjum þeim er veiði stundar.

Nauðsynlegt er að fjöldi fiska (meðalfjöldi yfir tímabil) í viðkomandi á sé þekktur, enda er ekki hægt að ákvarða hlufall eldisfiska nema sú tala sé þekkt. Samanber ofanskráð, var gerð sú tillaga til þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis að stofninn í viðkomandi á verði að þoli veiðiálag og tillagan sú að miða við að lágmarksmörk skráðrar veiði séu 50 fiska meðalveiði á samfelldu tíu ára tímabil.

c) Munu ný vatnsföll bætast við endurskoðun núverandi áhættumats? Og ef svo er, þá hver?

Svar:
Þær ár sem bæst hafa við frá fyrra áhættumati eru merktar með rauðum lit í töflu (sjá viðhengi ofar) en þar eru gefnar tölur fyrir stangveidda fiska. Þær ár hafa verið að bæta skráningu og skil á veiðiskýrslum á síðari árum. Auk þeirra áa sem taldar eru upp, þar sem stunduð er stangveiði, er um netaveiði að ræða í nokkrum ám, sem eiga það sameiginlegt að vera jökulár. Sú veiði byggist á blandaðri veiði sem að mestu er úr stofnum úr hliðarám sem hafa uppgefnar veiðitölur.

3. spurning:
Þetta eru lykilspurningar sem fleiri en við hjá IWF höfum velt fyrir okkur. Meðal annars óháða sérfræðinganefndin sem skipuð var af Kristjáni Þór Júlíussyni, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en í skýrslu hennar frá árinu 2020 er að finna þessar ábendingar:

„a.m.k. einhverjar þessara smærri lækja og áa gætu verið hluti af stærri yfirstofni (hópi stofna), annað hvort einar og sér eða með öðrum stærri ám. Nefndin hefur ekki upplýsingar um fjölda áa sem falla í þennan flokk á Íslandi, né heldur hvar þær eru (í tengslum við firði þar sem fiskeldi er stundað) eða hvaða aðstæður gilda um þessa stofna. Þannig gæti þessi annmarki verið einungis fræðilegur, eða hann gæti mögulega verið áhyggjuefni.

- Í grundvallaratriðum er tiltölulega einfalt mál að taka slíkar ár inn í líkanið og nefndin bendir á að það gæti skipt máli að taka inn einhverjar af ánum í þessum flokki.“

Svar:
Vegna þessa hefur verið farið í ítarlegar greiningar á seiðabúskap þessara vatnsfalla. Á árabilinu 2015-2021 voru tekin 16.244 sýni af seiðum, flest á Vestfjörðum, og af þeim hafa 2.518 verið greind með Salsea örtungla erfðamörkum (e. short tandem repeats (STRs)) og 7.296 með SNP 62K erfðagreiningu.

Verið er að vinna niðurstöður og er þeim ætlað að skera úr um hvort um sé að ræða hluta í svokölluðum hlutastofn (e. metapopulation.) Þess ber þó að geta að lög og reglugerðir taka ekki tillit til tilfella þar sem um er að ræða hlutastofna.

Vinnsla þessara gagna er nú í gangi til að kanna hvernig slíkar stofneiningar hafa áhrif á nytjastofna á Vestfjörðum. Þá fást vísbendingar um hvort líffræðilegum fjölbreytileika sé ógnað.

4. spurning:
„Ennfremur þarf að huga vandlega að 0-4%, 4-10% og >10% viðmiðunarmörkunum, sem fengin eru frá Noregi, í ljósi þess að eldislax sem alinn er á Íslandi er norskur að uppruna og þess vegna hugsanlega meiri ógn við innlenda stofna eftir innblöndun. Afleiðingin af þessu er að á tilteknum árum kann tíðni strokufisks í á skyndilega hækka t.d. úr 3%, sem er í flokknum lítil áhrif, upp í 12%, sem er í flokknum mikil áhrif.“

„...hin völdu markgildi gætu verið, eða ættu e.t.v. að vera, jafnvel varfærnislegri, þar sem laxastofninn sem notaður er á Íslandi er af norskum uppruna og er þar með frábrugðinn, bæði vegna eldisáhrifanna og þróunarsögu. Nefndin leggur til að Hafrannsóknastofnun íhugi þetta atriði gaumgæfilega í framtíðarútgáfum líkansins.

- Einnig er mögulegt að höfundar ættu að íhuga að nota lægri viðmiðunarmörk fyrir minni stofna en stærri stofna. Ástæða þess, eins og segir annars staðar í skýrslu okkar, er að fyrirliggjandi vísindaleg gögn benda til þess að litlir og dreifðir stofnar séu hlutfallslega viðkvæmari fyrir innblöndun en stærri og þéttari stofnar.“

Samkvæmt lesskilningi okkar hjá IWF er nefndin þarna ekki síst að vísa til minni villtra stofna sem eru innan núverandi eldissvæða á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Hver er skilningur sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar, höfunda áhættumatsins, á þessum ábendingum óháðu sérfræðinganefndarinnar? Og hvernig verður tekið tillit til þeirra við útgáfu endurskoðaðs áhættumats?

Svar:
Áhættumat tekur til allra vatnsfalla þar sem meðalfjöldi fiska er þekkt eða áætluð, sem fyrr. Skoðaðir eru sem fyrr, stofnar sem geta verið í hættu vegna nálægðar við eldissvæði.

Einn af þeim þáttum sem verða til skoðunar er viðmiðunarmörk varðandi hlutfallslegan fjölda fiska (4% mörkin) sem ákvarða mörk við mat á magni eldis.

5. spurning:
Áhættumat annarra þátta

Við hjá IWF höfum ítrekað sent inn athugasemdir við auglýst fyrirhuguð rekstrar- og starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi á laxi, að taka þurfi upp áhættumat vegna annarra þátta en erfðablöndun við villtan lax. Bæði vegna lúsasmits (laxa- og fiskilús) og áhrifa sjókvíaeldis á villta nytjastofna.

Aftur eru þetta atriði sem sérfræðinefndin gerir líka að umtalsefni í sinni rýni.

„Einnig þarf að huga vel að vörnum gagnvart laxalús og að hún valdi ekki skaða í eldinu og náttúrulegum stofnum nærri eldissvæðum.“

„Í íslenskum fjörðum á sér einnig stað hrygning nytjastofna og seiðauppeldi. Rannsaka þarf og vakta áhrif eldis á þessa þætti sem og á aðra nytjastofna eins og rækju.“

„Aðrir þættir geta jafnframt takmarkað umfang eldsins eins og endurskoðað burðarþol, óæskileg áhrif laxalúsar, stærð heppilegra eldissvæða og ef vart verður við óæskileg áhrif á hrygningu eða uppeldi nytjastofna sjávar (þorskur, ýsa, rækja og fleiri tegundir).“

Hvernig hyggst Hafrannsóknastofnun bregðast við þessum ábendingum? Deilir stofnunin áhyggjum yfir skorti á áhættumati á þessum áhrifum sjókvíaeldis á laxi á umhverfið og lífríkið? Og ef svo er, hyggst hún vinna áhættumat á öðrum áhrifum áður en lengra er haldið við útgáfu leyfa fyrir auknu sjókvíaeldi?

Svar:
Hafrannsóknastofnun hefur bent á að aðrir þættir geta jafnframt takmarkað umfang eldisins eins og endurskoðað burðarþol, óæskileg áhrif laxalúsar, stærð heppilegra eldissvæða og ef vart verður við óæskileg áhrif á hrygningu eða uppeldi nytjastofna sjávar (þorskur, ýsa, rækja og fleiri tegundir). Þekking á þessum þáttum hér á landi mun aukast á næstu árum í kjölfar þeirrar þekkingar sem aflast með rannsóknum og reynslu af eldinu. Undirstrika verður mikilvægi upplýsingagjafar, eftirlits og rannsókna á þeim þáttum sem eldi hefur áhrif á og að fjármagn til þeirra verði tryggt.

Með bestu kveðjum

Ragnar Jóhannsson og Guðni Guðbergsson


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?