Skýrsla um framkvæmd og helstu niðurstöður stofnmælinga botnfiska á Íslandsmiðum

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson HF 200 á miðunum úti fyrir Snæfellsnesi. 
Mynd: Svanhildur Egilsdó… Rannsóknaskipið Árni Friðriksson HF 200 á miðunum úti fyrir Snæfellsnesi.
Mynd: Svanhildur Egilsdóttir.

Komin er út skýrsla þar sem gerð er grein fyrir framkvæmd og helstu niðurstöðum stofnmælingar botnfiska á Íslandsmiðum sem fram fór dagana 28. febrúar til 20. mars 2024. Niðurstöður eru bornar saman við fyrri ár en verkefnið hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti ár hvert frá 1985.

Þorskur

Stofnvísitala þorsks hækkaði nær samfellt árin 2007-2017, fyrst og fremst vegna aukins magns af stórum þorski. Eftir lækkun árin 2018-2020 hefur vísitalan hækkað aftur og hefur verið á svipuðu róli síðustu 4 árin.

Fyrsta mæling á þorskárgangi 2023 bendir til að hann sé nálægt meðaltali meðan árgangar 2020-2022 (2-4 ára) mælast allir undir meðaltali í fjölda. Meðalþyngd 1-7 ára þorsks mældist undir meðaltali en meðalþyngd annarra aldurshópa var um eða yfir meðaltali. Undanfarinn áratug hefur meðal­þyngd þorsks 5 ára og yngri oftast verið undir meðaltali en meðalþyngd eldri þorsks hefur verið yfir meðaltali. Magafylli þorsks var almennt töluvert minni í ár og er ástæða þess að lítið var af loðnu í mögum samanborið við flest fyrri ár.

Ýsa

Stofnvísitala ýsu hefur hækkað frá árinu 2016 eftir að vera lág á árunum 2010-2016. Vísitalan í ár breyttist lítið frá fyrra ári og er svipuð og hún var á árunum 2001-2005 þegar hún var sú hæsta á rannsóknatímabilinu.

Árgangar frá 2022 og 2023 (1 og 2 ára) mælast undir meðaltali í fjölda meðan allir árgangar 2011-2021 (3-13 ára), fyrir utan 2018, mælast yfir meðaltali í fjölda.

Meðalþyngd 2 og 3 ára ýsu var undir meðaltali síðustu 3 ár en meðalþyngd 4 ára og eldri hefur verið um eða yfir meðaltali undanfarin 9-11 ár. Í ár lækkaði meðalþyngd allra aldursflokka 3 ára og eldri. Í ár var minna af loðnu í mögum hjá smárri og millistórri ýsu.

Aðrar tegundir

Stofnvísitala ufsa hefur lækkað frá árinu 2018 og er nú nálægt meðaltali. Vísitölur gullkarfa og keilu eru háar miðað við síðustu fjóra áratugi. Vísitala löngu mældist sú hæsta frá upphafi en vísitala steinbíts lækkaði frá í fyrra þó hún sé enn há í sögulegu samhengi.

Hitastig sjávar

Hitastig sjávar við botn mældist að meðaltali hátt líkt og undanfarin ár en þó má greina lækkun hitastigs á grunnslóð fyrir norðan og austan frá hámarkinu árið 2017.

Skýrsluna mér finna hér. 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?