Ráðstefna um bergmálstækni við rannsóknir

Ráðstefna um bergmálstækni við rannsóknir

Í morgun opnaði Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, árlega ráðstefnu vinnunefndar Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES) sem fjallar um notkun bergmálstækni við fisk- og sjávarrannsóknir (ICES WGFAST, Working Group on Fisheries Science and Technology, sjá vef nefndarinnar) og stendur hún til 11. apríl.

Á ráðstefnunni verður kynnt það nýjasta sem er að gerast í þessum vísindum. Efni fundarins er innan þriggja meginmálstofa:

  • Aðgreining lífvera með bergmáli
  • Bergmálsaðferðir til að lýsa eiginleikum stofna, vistkerfa og atferli lífvera
  • Nýjungar í tækni, aðferðum og vinnulagi

Viðfangsefnin eru fjölbreytt og meðal annars verður fjallað um:

Bergmál rauðátu, ljósátu, smárra sem og stærri fiska, hvalahljóð, umhverfis-DNA, vistkerfisrannsóknir. Haldin verða erindi sem kynna rannsóknir og þróun á sviði neðansjávarathugunarstöðva, ómannaðra yfirborðsfleyja, sjálfstýrðra kafbáta, og nýrra gerða slíkra tækja. Mikill vöxtur er í nýjum hugbúnaðarlausnum og úrvinnsluaðferðum auk skýjalausna. Ennfremur verður kynnt líkanagerð sem námundar bergmálseigingleika mismunandi endurvarpara, sjálfvirknivæðing úrvinnslu um borð í ómönnuðum förurm (edge processing) og notkun gervigreindar við greiningu bergmáls. Ennfremur verða kynningar á sértækari viðfangsefnum á við kvörðun bergmálsmæla undir miklum þrýsting og yfirlit um notkun fjölgeislamæla við rannsóknir á lífríki í vatnssúlunni.

Ráðstefnuna sækja hátt í 100 sérfræðingar á þessu sviði víðs vegar að úr heiminum og ennfremur fylgjst ríflega 50 manns með á fjarfundi. Hafrannsóknastofnun þakkar bæði fjölmörgum innlendum og erlendum aðilum fyrir veittan stuðning við framkvæmd ráðstefnunnar


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?