Ráðgjöf fyrir rækjustofna í Arnarfirði og í Ísafjarðardjúpi fyrir vertíðina 2020/2021

Mynd: Svanhildur Egilsdóttir. Mynd: Svanhildur Egilsdóttir.

Með hliðsjón af niðurstöðum könnunar á ástandi innfjarðarrækjustofna sem fram fór dagana 28. september til 4. október leggur Hafrannsóknastofnun til að leyfðar verði veiðar á 184 tonnum af rækju í Arnarfirði og 586 tonnum í Ísafjarðardjúpi á vertíðinni 2020/2021.

Ástand rækjustofna í Húnaflóa, Skagafirði, Skjálfanda og Öxarfirði var ekki kannað. Ráðgjöf stofnunarinnar hefur undanfarin ár verið að ráðleggja að engar veiðar séu stundaðar á þessum svæðum vegna slæms ástands stofnanna.

Stofnvísitala rækju í Arnarfirði var nálægt sögulegu lágmarki en yfir skilgreindum varúðarmörkum. Rækjan í Arnarfirði var smærri en undanfarin ár. Meira var af þorski og ýsu í Arnarfirði en undanfarin ár.

Stofnvísitala rækju í Ísafjarðardjúpi var undir meðallagi en yfir skilgreindum varúðarmörkum. Útbreiðsla rækjunnar var að miklu leyti takmörkuð við svæðið innst í Ísafjarðardjúpi. Nýliðunarvísitala rækju var langt undir meðallagi árin 2016–2020. Vísitala þorsks hefur farið lækkandi frá árinu 2012. Vísitala ýsu hefur haldist há frá 2004. Mikið var af ýsu 1 árs og eldri á svæðinu í október 2020.

Arnarfjörður

Ísafjörður


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?