Málstofa 27. mars: Loðna í eldi: vöxtur, lifun og þroski loðnu alinnar á mismunandi hitastigum.

Loðna í eldiskeri í tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar í Grindavík. Loðna í eldiskeri í tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar í Grindavík.

Fimmtudaginn 27. mars verður haldin málstofa á vegum Hafrannsóknastofnunar sem ber yfirheitið Loðna í eldi: vöxtur, lifun og þroski loðnu alinnar á mismunandi hitastigum. Einar Pétur Jónsson doktorsnemi á Hafrannsóknastofnun flytur erindið og verður erndið flutt á ensku. 

Loðna spilar lykilhlutverk í vistkerfum norðarlega í bæði Atlants- og Kyrrahafi, og er mikilvæg þeim samfélögum sem þar búa. Auk þess er loðna æti fyrir ýmsar tegundir á svæðinu, til dæmis fyrir þorskinn – þá fisktegund sem mestu máli skiptir fyrir íslenskt hagkerfi. Fyrri rannsóknir gefa til kynna að útbreiðsla loðnu sé viðkvæm fyrir breytingum á hitastigi, með tilheyrandi afleiðingum fyrir vist- og hagkerfi.

Nýlega var loðna alin frá klaki til kynþroska í tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar, sem gaf þá færi á tilraunarannsóknum eins og þeirri sem kynnt á málstofunni. Tilgangur þessarar rannsóknar er að öðlast betri innsýn í frammistöðu og þol loðnu á mismunandi hitastigum. Tilraunin hefur nú staðið frá myndbreytingu í eitt ár, á fimm mismunandi hitastigum (3° til 15°C), og áhrif hitastigs hafa verið metin út frá vexti, lifun og kynþroska. Hámarksstærð var lægri með hitastigi, en fiskarnir nálguðust þá stærð almennt hraðar á hærri hitastigum. Lifun var áberandi dræm á 15°C og kynþroski var almennt minni með hærri hita. Rannsóknin eykur skilning okkar á sambandi loðnu við hitastig, en bendir líka á mikilvægi tilrauna sem vara verulegan hluta æviskeiðs þeirrar tegundar sem rannsökuð er svo áhrif þeirrar breytu sem er prófuð skiljist sem best.
Málstofan er opin öllum á jarðhæð höfuðstöðva Hafrannsóknastofnunar Fornubúðum 5 en einnig á Teams. Teams tengillinn er hér. Athugið að málstofan sem verður tekin upp og verður erindið flutt á ensku. 

 

 

 



Einar Pétur Jónsson doktorsnemi á Hafrannsóknastofnun


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?