Hvalir merktir með nýrri gerð gervitunglamerkja

Mynd fengin af vefsvæði NAMMCO Mynd fengin af vefsvæði NAMMCO

Undanfarnar vikur hefur Hafrannsóknastofnun gert tilraunir til að merkja hrefnur inni á Eyjafirði með merkjum sem eru afrakstur þróunarverkefnis innan vébanda Norður Atlantshafs Sjávarspendýraráðsins, NAMMCO North Atlantic Marine Mammal Commission). Verkefnið heitir MinTag og hefur stofnunin hefur verið þátttakandi í því frá upphafi árið 2021.

Markmið þess er að þróa smærri gervitunglamerki sem henta til merkinga á hraðsyndari hvalategundum eins og hrefnum, langreyðum og grindhvölum en þær tegundir hafa reynst vísindamönnum erfiðar til merkinga hingað til. Verkefnið er því afar mikilvægt til að bæta aðferðir við öflun þekkingar um ferðir og atferli þessara tegunda. Merkin eru hönnuð í samstafi við verkfræðifyrirtækið Wildlife Computers í Bandaríkjunum sem hefur verið leiðandi á sviði hönnunar á merkjum til notkunar við rannsóknir á villtum dýrum. Þátttakendur verkefnis eru auk Íslands, Noregur, Grænland, Færeyjar og Japan, en sérfræðingar hjá Hafrannsóknastofnun sjá um merkingarnar hérlendis.

Lesa má nánar um verkefnið og þróunarvinnuna á vefsíðu NAMMCO, hér á og jafnframt má fylgjast með öllum merktum hvölum með hinum nýju merkjum á sérstakri síðu um verkefnið, hér.

Undanfarnar vikur hefur Hafrannsóknastofnun gert tilraunir til að merkja hrefnur inni á Eyjafirði með merkjum sem eru afrakstur þessarar þróunarvinnu. Til þess var leigður Tryggvi Sveins EA-49 sem er sérstaklega vel útbúinn til slíkra merkinga enda oft verið notaður áður í slíkum tilgangi. Skipstjóri og skytta er Tryggvi Sveinsson sem hefur áratuga reynslu af merkingum hvala. Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar sem taka þátt í verkefninu eru Dr. Sandra Granquist (verkefnisstjóri af Íslands hálfu), Sverrir Daníel Halldórsson (leiðangursstjóri og þátttakandi í þróunarvinnu), Eric dos Santos og Bronte Mae Harris.

Hrefnur eru erfiðar viðfangs þegar kemur að því að nálgast þær og því þarf að beita nokkurri lagni ef ætlunin er að komast nægilega nálægt þeim til að tryggja að merkingin heppnist. Þær eiga til að synda þvers og kruss og því erfitt að lesa í hvar þær komi næst upp til að anda. Það er því þolinmæðisverk að merkja þær.

Nokkuð hefur verið af hrefnum inni á Eyjafirði undanfarið og tókst að merkja dýr skammt sunnan Hjalteyrar 14. september. Á meðfylgjandi korti má sjá feril merktu hrefnunnar fyrstu sólarhringana. Eftir að dýrið kom norður úr Eyjafirði setti það stefnu austur og var tveimur dögum eftir merkingu komið austast í Axarfjörð. Þar sem hún hefur haldið sig að mestu síðan.

 

„Meðfylgjandi kort sýnir ferðalag hrefnunnar frá fyrstu sendingu þann 15. september en þá er hún stödd í minni Eyjafjarðar og til hádegis 23. september en þá er hún austast í Axarfirði. Merkinu var komið í hana rétt sunnan Hjalteyrar.“


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?