Árni Friðriksson í makrílrannsóknum

Hér má sjá þau Önnu Heiðu Ólafsdóttur, leiðangursstjóra makrílleiðangursins, Kristján H. Kristinsson… Hér má sjá þau Önnu Heiðu Ólafsdóttur, leiðangursstjóra makrílleiðangursins, Kristján H. Kristinsson skipstjóra á Árna Friðrikssyni og Sverri Daníel Halldórsson, umsjónarmann hvalatalningaverkefnis. Þau eru kampakát um borð í Árna í bolum sem voru hannaðir af Charlotte Matthews til að fagna 15 ára afmæli leiðangursins.

Árni Friðriksson í makrílrannsóknum

Rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar Árni Friðriksson fór úr Hafnarfjarðarhöfn 1. júlí til þátttöku í árlegum alþjóðlegum uppsjávarleiðangri. Eitt af meginmarkmiðum hans er að meta magn og útbreiðslu makríls, kolmunna og norsk-íslenskrar síldar í norðaustur Atlantshafi að sumarlagi.

Í leiðangrinum verður einnig aflað gagna sem nýtast við vöktun og fjölbreyttar rannsóknir á ýmsum þáttum vistkerfisins þ.m.t. frumframleiðni, ástandi sjávar, mælingar á átumagni og rannsóknir á miðsjávarfiskum og -hryggleysingjum. Í ár verður einnig umfangsmikil hvalatalning í leiðangrinum sem er hluti af svokallaðri NASS talningu (North Atlantic Sighting Survey) og hófst í karfaleiðangri á Árna Friðrikssýni í júní síðastliðnum (https://www.hafogvatn.is/is/midlun/frettir-og-tilkynningar/hvalatalningar-sumarsins-hafnar).

Fimmtán ár af rannsóknum á makríl

Þetta er fimmtánda árið í röð sem Hafrannsóknastofnun tekur þátt í þessum leiðangri ásamt skipum frá Noregi, Færeyjum og Danmörku. Yfirferðasvæði Árna er fyrir norðan, austan, sunnan og vestan landið ásamt svæði í grænlenskri landhelgi fyrir norðan Ísland (Mynd 1). Líkt og áður er hægt að fylgjast með staðsetningu og feril Árna á slóðinni: https://skip.hafro.is/.

Leiðangurinn á Árna stendur í 34 dag og verða sigldar tæplega 5500 sjómílur eða um 9400 km og 55 yfirborðstogstöðvar verða teknar á fyrirfram ákveðnum stöðum. Um borð eru 15 vísindamenn og 17 manna áhöfn.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?