Á Meðalfellsvatni í Kjós voru æfðar sýnatökuaðferðir á örplasti frá yfirborðsvatni og meðferð tækja til örplastsýnatöku.
Alþjóðlegt samstarf í örplastrannsóknum
Nýlega var komið fót alþjóðlegu samvinnuverkefni til að styrkja samvinnu í örplastsrannsóknum en verkefnið styrkt af uppbyggingarsjóði EES og Noregs. Verkefnið ber heitið Strategic initiative to improve research performance and strengthen cooperation in microplastic pollution field, og heitið gæti útlagst Stefnumótandi verkefni til að bæta rannsóknaframmistöðu og styrkja samvinnu á sviði rannsókna á örplastsmengun. Egill Antonsson, sérfræðingur í umhverfisvöktun, er fulltrúi Hafrannsóknastofnunar í verkefninu.
Markmið verkefnisins er að bæta rannsóknarinnviði og styrkja samvinnu milli vísindamanna í Eistlandi, Finnlandi, Íslandi og Lettlandi á sviði rannsókna á örplasti í umhverfinu. Verkefnið er vettvangur fyrir þverfaglega umræðu og er ætlunin að leggja drög að frekara samstarfi í örplastsrannsóknum.
Fyrsti fundur hópsins var haldinn á Íslandi og voru umræður frjóar um áherslur í örplastsrannsóknum og gafst þátttakendum færi á bera saman bækur sínar. Fyrsta aðgerð samstarfsaðila var vettvangsferð til Meðalfellsvatns í Kjós þar sem sýnatökuaðferðir á örplasti frá yfirborðsvatni og meðferð tækja til örplastsýnatöku var æfð.
Verkefnisnúmer þessa verkefnis er: EEZ/BPP/LZP/2023/3, EEA-RESEARCH-89-RC