Púpuhamir fljótandi á vatnsyfirborði
Rykmý í vatnavistkerfum á Íslandi
Í síðastliðinni viku stóð Hafrannsóknastofnun fyrir námskeiði í söfnun og greiningu á púpuhömum rykmýs, sem safnað hefur verið úr ám og vötnum víða á landinu. Rykmý er eitt algengasta dýr í ferskvatni á Íslandi. Lirfu- og púpustig þess lifa í lækjum, ám, tjörnum og stöðuvötnum. Nokkrar tegundir rykmýs finnast jafnvel í sjó, einkum á grunnsævi. Áður en mýflugan klekst út og flýgur um í leit að maka, syndir púpan upp í vatnsyfirborð þar sem hún skríður úr hamnum. Hamur púpunnar, sem gerður er úr kítíni, flýtur á vatnsyfirborði um nokkra hríð eftir að flugan hefur afklæðst honum.

Víða erlendis eru púpuhamirnir notaðir til að segja til um hvaða rykmýstegundir hafast við þar sem þeim er safnað. Hamina er hægt að greina til tegunda og auðvelt er að safna þeim. Þannig getur verið mun einfaldara að svara spurningum um áhrif ýmissa umhverfisþátta á lífríki vatna og fjölbreytni, s.s. vegna mengunar eða framkvæmda. Fyrir rúmri viku var vitað til þess að um 80 tegundir rykmýs væru þekktar hér á landi. Í síðastliðinni viku bættust við 20 áður óþekktar tegundir. Á námskeiðinu sem Hafrannsóknastofnun stóð fyrir 17.–20. mars sl. komu saman sérfræðingar í rannsóknum á vatnalífi víða að af landinu auk sérfræðinga frá Hafrannsóknastofun og lærðu allt er viðkemur sýnatöku á púpuhömum, tegundagreiningu þeirra og úrvinnslu gagna. Leiðbeinendur komu frá Bretlandseyjum, dr. Peter Langton og dr. Les Ruse, en þeir eru báðir heimsþekktir sérfræðingar á þessu sviði.
Lífsferill rykmýs
Ný nálgun í vistfræðirannsóknum á Íslandi, þar sem púpuhamir rykmýs eru nýttir til að svara spurningum um ástand vatna, á eftir að aukast til muna m.a. við vöktun á ferskvatni í tengslum við stjórn vatnamála (Vatnatilskipun), vöktun vegna framkvæmda, rannsókna er lúta að ástandi ferskvatns fyrir ræktun laxfiska o.s.frv.

Þátttakendur á námskeiði í söfnun og greiningu á púpuhömum rykmýs sem haldið var í höfuðstöðvum Hafrannsóknastofunar í Hafnarfirði í mars 2025.