Tunglfiskur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Mola mola
Danska: klumpfisk, månefisk
Færeyska: mánafiskur
Norska: månefisk
Enska: ocean sunfish, sunfish
Þýska: Klumpfisch, Mondfisch, Sonnenfisch
Franska: lune, môle, poisson-lune
Spænska: mola, pez luna
Portúgalska: mola, peixe-lua
Rússneska: Луна-рыба / Luná-rýba

Tunglfiskur er mjög sérkennilegur útlits. Hann er stuttur og hár, þunnvaxinn og hálfsporbaugóttur. Fljótt á litið virðist hann ekkert vera nema hausinn. Bak- og raufaruggi eru andspænis hvor öðrum og gnæfa upp og niður á mótum bols og stirtlu sem er mjög stutt. Sporðblaðka er sem bogadregin faldur. Eyruggar eru í meðallagi. Haus rennur saman við bolinn. Kjaftur er lítill og tannskaflar í báðum skoltum eru samgrónir. Augu eru kringlótt og frekar smá. Tálknaop eru lítil. Roðið er mjög þykkt og hveljukennt og alsett smáum beinörðum eða körtum svo það líkist hákarlsskrápi. Rák sést ekki. Hámarkslengd tunglfisks er á bilinu 3-3,5 m og mesta þyngd rúm 2 tonn. Fiskar stærri en 1,5 m eru þó sjaldséðir. Tunglfiskur mun vera þyngstur beinfiska.

Litur: Tunglfiskur er mógrár, grábrúnn eða blágrár á lit að ofan. Á hliðum er hann grábrúnn með silfurblæ og ljósum blettum á stærð við augun en hvítleitur á kvið. Bak- og raufaruggar eru dökkir.

Geislar: B 15-20; R: 14-18: hryggjarliðir: 17

Lífshættir: Tunglfiskur er úthafsfiskur og bendir ýmislegt, m.a. fæða hans, til þess að hann lifi á allmiklu dýpi, a.m.k. niður á 360 m þó hans verði að mestu vart við yfirborð.

Í maga margra tunglfiska sem rannsakaðir hafa verið hafa fundist alls konar hryggleysingjar t.d., marglyttur, krabbadýr, slöngustjörnur, skeldýr og jafnvel þari. Einnig hafa fundist ýmsir fiskar, t.d. síld, flundra og miðjarðarhafslanga sem lifir á 200-1000 m dýpi. Aðalfæða hans virðist þó vera álaseiði, marglyttur og kolkrabbaungviði. Úr einni tunglfiskhrygnu, sem ekki var stærri en 150 cm, voru talin allt að 300 miljón egg, fleiri en í nokkurri annarri fisktegund. Tunglfiskur hrygnir m.a.a í Þanghafinu og nýklakin seiði eru um 3 mm á lengd og eru þau með fimm langa gadda og sporð. Síðan hverfa gaddarnir og sporðurinn. Um vöxt er ekkert vitað.

Flestir þeir tunglfiskar sem náðst hafa voru ýmist reknir á fjöru eða nær dauða en lífi í yfirborðinu. Ef til vill voru það allt dasaðir og dauðvona fiskar komnir langt frá heimkynnum sínum.

Nytsemi er lítil of ger tvennum sögum af gæðum fisksins. Sumir hafa talið tunglfiskinn lítt hæfan til neyslu vegna skyldleika við norkkrar eitraðar fisktegundir (töskufiska, Ostraciidae, ígulfiska, Diodontidae ofl.) en ekki fer sögum af að nokkur hafi látist vegna tunglfiskáts.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?