Tuðra

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Himantolophus albinares

Tuðra er smávaxinn og slyttislegur fiskur með stóran haus og víðan kjaft alsettan nálhvössum tönnum á skoltum. Augu eru smá. Bak- og raufaruggar eru allstóri og andspænis hvor öðrum aftarlega á fiskinum. Eyruggar eru í meðallagi stóri en kviðugga vantar. Sporður er stór. Mest einkennandi fyrir tuðru er óhemjulöng “veiðstöng” á miðju enni og nær hún vel aftur fyrir bakugga. Neðri hluti þessarar stangar er allsterklegur og hrufóttur og á henni eru tvö eða þrjú pör grannra þráða. Um miðja stöng er eins konar hnúður eða þykkildi og þar klofnar stöngin í tvo hvíta anga sem teygjast aftur (eða fram) og mynda sennilega ljósfæri. Ofan á haus og við rætur “veiðistangar” eru ljósir blettir sem einnig eru ljósfæri. Ljósir blettir eru líka á fremsta geisla bakugga og raufarugga, í efsta og neðsta geisla sporðblöðku sem og við efri og neðri rætur hennar. Roð er þakið göddum á víð og dreif. Stærð getur orðið um 24 cm.

Litur: Tuðra er svört eða grásvört á lit.

Geislar: B: 5; R: 3-4.

Lífshættir: Tuðra er miðsævis-, botn og djúpfiskur.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?