Trönusíli

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Hyperoplus lanceolatus
Danska: tobiskonge
Færeyska: stóra nebbasild
Norska: blåsil, storsil
Sænska: tobiskung, vittobis
Enska: greater sandeel
Þýska: Gefleckter Grosse Sandaal
Franska: lancon commun
Spænska: pión
Portúgalska: galeota-maior
Rússneska: Большая песчанка / Bolshája pestsjánka

Trönusíli líkist mar- og sandsíli mjög í útliti, þ.e. er langvaxið, þunnvaxið og sívalt með langan bak- og raufarugga en þekkist auðveldlega frá þeim á því að neðri skoltur teygist lengra fram og verður það þannig yfirmynntara. Þá getur það ekki skotið fram miðskoltsbeininu. Á plógbeini eru tvær stórar tennur og á snjáldri er stór svartur blettur hvorum megin. Loks ná eyruggar ekki aftur fyrir fremri rætur bakugga. Trönusíli verður rúmlega 40 cm á lengd. Í október 1994 veiddist þannig 42 cm langt trönusíli í Garðsjó.

Litur: Trönusíli er grænt eða blágrænt á baki og hliðum en kviður er silfurhvítur auk þess sem áðurnefndir svartir blettir eru á hliðum snjáldurs.

Geislar: B: 52-61; T: 25-33; hryggjarliðir: 65-69.

Lífhættir: Trönusíli lifir frá fjöruborði og niður á um 150 m dýpi en er einna algengast á 20-50 m. Það er mest á sandbotni og grefur sig gjarnan niður í hann eins og mar- og sandsíli og þá einkum á daginn, en fer á stjá á nóttunni. Það gengur á grunnin á sumrin en dýpkar á sér á veturna. Oft er það í stórum torfum.

Fæða er alls konar smákrabbadýr og lirfur þeirra, fiskaegg og seiði, einnig smáfiskar, m.a. mar- og sandsíli.

Trönusíli hrygnir hér við suður- og suðvesturströndina, líklega frá byrjun janúar til mars. Í Norðursjó hrygnir það í apríl til ágúst á 20-100 m dýpi. Fjöldi eggja er 30-35 þúsund. Þau eru límd við botnsandinn og klekjast á um þremur vikum og seiði eru sviflæg þar til þau leita botns að hausti. Trönusílið verður kynþroska tveggja ára gamalt.

Nytjar: Hér við land gegnir trönusíli aðeins hlutverki sem fæða annarra fiska auk fugal en Danir veiða það í Norrðursjó með mar- og sandsíli.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?