Tröllarækjubróðir

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Eusergestes arcticus
Enska: Arctic red prawn

Einkenni: Tröllarækjubróðir er af ætt þursarækja Penaeidea. Hann er hliðarflatur, rauðleitur að framan
en með gagnsæjan afturbol. Hann er misrauður eftir dýpi, þ.e. verður rauðari með auknu dýpi (28.
mynd). Heildarlengd hans getur orðið allt að 6,5 cm. Spjótið er mjög stutt og nær að botni augnstilksins.
Höfuðbolurinn er án gadda og fjórða og fimmta fótapör eru styttri en hin. Tröllarækjubróður getur
verið ruglað saman við órækju, en í raun er mjög auðvelt að greina á milli þessara tegunda þar sem
sjötti liðurinn á afturbolnum er áberandi lengri en aðrir liðir á afturbol tröllarækjubróður (Nozeres og
Berube, 2003).

Útbreiðsla: Tröllarækjubróðir hefur fundist frá 70°N vestur af Grænlandi og bæði í Norður‐ og Suður‐ Atlantshafi (Squires, 1990). Hér við land hefur
tröllarækjubróðir aðallega fundist út af Norðurlandi og þá einkum sést í skjóðu rækjutrollsins og í rækjutrollinu. Aðeins í nokkur skipti hefur tegundin fundist í fæðusýnum. Hann hefur veiðst á dýptarbilinu 274 – 1200 m og við hitastig á bilinu ‐ 0,8 – 1,2 °C.


Lífshættir: Tröllarækjubróðir er ekki botndýr heldur lifir í efri lögum sjávar á 100 – 500 m dýpi, en færir
sig lóðrétt til í sjónum. Hann fer nokkur hundruð metra dýpra á daginn til þess að forðast afrán og ofar á nóttunni til þess að afla sér fæðu.
Tröllarækjubróðir er rándýr og nærist á smávöxnum krabbadýrum, einkum krabbaflóm (Squires, 1996; Vestheim og Kaartvedt, 2009).

Nytjar: Tröllarækjubróðir er ekki veiddur til manneldis.

 

Heimild: https://www.hafogvatn.is/is/midlun/utgafa/haf-og-vatnarannsoknir/raekjutegundir-vid-island

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?