Trjónuhali

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Coelorinchus caelorhincus
Danska: sortplættet skolæst
Færeyska: svartblettuta langasporl
Norska: spiritist
Enska: Hollowsnout rattail
Franska: grenadier raton
Spænska: granadero acorazado
Portúgalska: lagartixa-do-mar
Rússneska: Полорыл / Polorýl

Trjónuhali er hausstór, langvaxinn og mjög stóreygður fiskur með framteygða trjónu. Er trjónan að mestu hreisturlaus að neðan. Kjaftur er frekar smár og á neðri skolt er lítill hökuþráður.

Fremri bakuggi er allhár og fremsti broddgeisli er örlítill en langur og lágur og rennur saman við sporð og raufarugga. Raufaruggi er langur – lengri en aftari bakuggi og geislar hans eru lengri. Eyr- og kviðuggar eru allvel þroskaðir. Fremsti geisli kviðugga teygist aftur. Ekki vottar fyrir sporðblöðku.

Hreistur er smágaddað og hrjúft viðkomu og rákin er greinileg. Á kviði, rétt framan við rauf og á milli og framan við kviðugga er svartur hreisturslaus blettur- ljósfæri.

Trjónuhali getur orðið rúmlega 40 cm langur.

Litur: Trjónuhali er ljósgrábrúnn eða svartur á lit en kok og tálknalok eru svört að innan.

Lífshættir: Trjónuhali er miðsævis-, botn- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 90- 1250 m dýpi en virðist vera algengastur á 200-500 m dýpi.

Um hrygningu er lítið vitað nema hann hrygnir í Messínasundi í Miðjarðarhafi í desember til mars.

Fæða er ýmiss konar botndýr eins og burstaormar, sniglar, smokkfiskar og fjöldi smákrabbadýra (krabbaflær, agnir, ljósáta, rækja o.fl.) og fiskar.

Nytjar: Engar opinberar skýrslur eru til um afla en trjónuhali veiðist sums staðar sem aukaafli með öðrum tegundum og er t.d. mikið um hann við Vestur-Afríku. Fer hann þá mest í mjöl og lýsi.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?