Svartserkur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Melanochlamys diomedea
Enska: Albatross aglaja

Útlit

Svartserkur er sjávarsnigill af ættbálknum Cephalaspidea. Snigillinn er dökkbrúnn eða svartur, oft með blárri slikju. Hann getur orðið yfir 2 cm á lengd og 0,5 – 1 cm á breidd. Skelin er innan í afturbolnum og nær yfir um þriðjung af lengd dýrsins. Lögun skeljarinnar er einstök fyrir tegundina og bæði stærri og lengri en í öðrum tegundum ættkvíslarinnar. Framendi dýranna er ávalur og við munnopið eru skynhár. Beggja megin munnsins er opnun á slímkirtlum sem taldir eru gegna hlutverki við hreyfingu dýranna í seti.

Heimkynni

Náttúruleg útbreiðsla svartserks er meðfram Kyrrahafsströnd Norður Ameríku frá Suður Kaliforníu til Alaska. Þar til sumarið 2020, þegar svartserkur fannst fyrst á Íslandi, hafði hann eingöngu fundist í Kyrrahafi. Sumarið 2020 varð fyrst vart við eggjasekki í fjöru í Fossvogi og síðar sáust samskonar eggjasekkir í Sandgerði og í innanverðum Breiðafirði. Staðfest var haustið 2023 að um svartserk væri að ræða. Sumarið 2024 var útbreiðsla svartserks könnuð og fundust dýr og eggjasekkir víða í fjörum frá Suðurnesjum norður í Eyjafjörð. Ekki er enn vitað til þess að tegundin finnist á Austfjörðum eða við suðurströndina.

Lífshættir

Dýrin ferðast um hálf niðurgrafin í setið í nokkurskonar slímgöngum sem þau mynda jafnóðum. Helstu búsvæði svartserks eru í fjöru og neðan hennar á leir- og sandbotni. Svartserkir eru rándýr sem lifa á því sem þau finna í setinu s.s. burstaormum, þráðormum og lindýrum. Rykmýslirfur hafa fundist í maga svartserks sem fannst á leirum við innanverðan Breiðafjörð. Svartserkir eru tvíkynja og mynda bæði egg og sáðfrumur. Eggin setja svartserkir í eggjasekki sem eru 0,5 – 2,5 cm á lengd. Eggjasekkirnir eru festir við botninn með festiþræði sem lagður er ofan í setið og varnar því að þeir fljóti í burtu. Í hverjum eggjasekk eru fjölmörg eggjahylki sem umlukin eru slímmassa. Í hverju eggjahylki geta verið eitt til fjögur egg. Í einum eggjasekk geta verið 25.000 til 50.000 eggjavísar. Það tekur eggin um 7 – 10 daga að þroskast, eftir það klekjast úr þeim lirfur sem lifa í vatninu í meira en mánuð.

Annað/ítarefni

Lítið er vitað um lifnaðarhætti svarserks á Íslandi og upplýsingarnar því byggðar á rannsóknum á tegundinni í Kyrrahafi. Svartserkur er framandi tegund og lítið er vitað um hvaða áhrif hún hefur á vistkerfi fjörunnar við Ísland.

Ekki er þekkt hvernig tegundin barst til landsins og merkilegt er að fundur hennar hér er sá fyrsti í Atlantshafi. Talið er að flutningur lífvera milli landa eigi sér oftast stað með skipaflutningum, en ekkert er hægt að fullyrða um hvernig svartserkur barst hingað til lands og af hverju hann finnst bara hér en ekki víðar við Atlantshaf.

Lesa má grein um fund tegundarinnar hér.

 

Heimildir

Bergh, R (1894
Rudman, WB (1972) 
Steinberg JE and Jones ML (1960)
Strathmann.MF (1987)
Podolsky, R., Castro, D. A., & Podolsky, R. D. (2012)
Woods, H. A., & DeSilets, R. L. (1997)

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?