Svarthyrna

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Oneirodes eschrichtii
Danska: Eschrichts mareangler
Enska: Anglerfish, bulbous dreamer, common dreamer, deepsea angler

Svarthyrna er lítill fiskur, frekar hávaxinn og stuttvaxinn. Kjaftur er stór, nær aftur fyrir augu og er hann dálítið skásettur. Tennur á skoltum eru í meðallagi, misstórar og vísa aftur. Tennur í neðri skolti eru stærri og fleiri en í efri skolti. Plógbein er tennt og eru þrjár til fjórar tennur hvorum megin. Haus er frekar stór og augu smá og sveipuð himnu. Á haus eru tveir gaddar hvorum megin ofan augna. Velþroskaður broddur er á neðri skolti. ”Veiðistöng” er nálægt trjónuenda og eru nokkrir stuttir þræðir á ysta oddi ljósfæris (um lögun ljósfæris, sjá greiningarlykil). Bak- og raufaruggar eru rétt framan við sporð og vísa aftur eins og hann. Svarthyrna verður allt að 30 cm á lengd, sú stærsta sem fundist hefur hér er 22 cm.

Litur er svartur eða dökkbrúnn nema ljósfærið sem er hvítt.

Geislar: B: 5-7; R: 4-5; E: 13-19; S: 9.

Heimkynni svarthyrnu eru í öllum heimshöfum. Í norðvestanverðu Atlantshafi hefur hún veiðst sunnan Bermúda og við Vestur- og Suður-Grænland, í Norðaustur-Atlantshafi við Ísland og vestan Írlands allt suður til 10°52’N. Í Suður-Atlantshafi finnst hún suður til 40°S og milli 43°V og 7°V. Í Kyrrahafi er hún í landgrunnshallanum undan Ameríku frá 33°N til 34°S. Í Mið-Kyrrahafi hefur hún fundist a.m.k. tvisvar sinnum, einu sinni í Kúril-Kamtsjatka gjánni, einu sinni sunnan Tasmaníu og nokkrum sinnum við Austur-Indíur. Þá hefur hún fundist í Adenflóa og Arabíuflóa.

Árið 1973 veiddi þýska rannsóknaskipið Walther Herwig eina svarthyrnu djúpt undan Vesturlandi. Var það sem næst 65°N og 29°V. Þá veiddust fjórar haustið 1985 á rækjumiðum við miðlínu milli Íslands og Grænlands og nokkrar hafa bæst við síðan af miðunum suðvestan Reykjaness og grálúðuslóðinni vestan Víkuráls.

Lífshættir: Svarthyrna er miðsævis-, botn- og djúpfiskur sem lifir á nokkur hundruð metra dýpi. Hér hefur svarthyrna veiðst á 64-900 m dýpi og ýmist í botn- eða flotvörpu.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?