Surtla

Surtla með áfastan karl. Surtla
Karl fastur á sutrlu. Surtla
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Linophryne lucifer
Danska: Tvebladet trådangler
Enska: Forkbarbel throat
Franska: Gorge à barbe fourchue

Surtla er mjög hausstór, hávaxinn og þunnvaxinn fiskur með stóran og skásettan kjaft og langar og hvassar tennur í báðum skoltum, á plógbeini og í efra koki. Augu eru mjög lítil og ofan og aftan við hvort auga er smáhorn. Á enda „veiðistangar" á enni er kúlulaga ljóskirtill og tveir til átta stuttir angar fremst á honum. Á hálsi er langur angi sem nær vel aftur fyrir eyrugga og kvíslast hann í endann. Tálknaop eru mjög þröng og liggja rétt við eyruggarætur. Bak- og raufaruggi eru litlir og mjög aftarlega, alveg aftur á stirtlu og andspænis hvor öðrum. Sporður er allstór, eyruggar frekar litlir og kviðugga vantar. Raufin opnast aftan til á vinstri hlið. Roð er slétt. Í júní 1968 veiddist 40 cm surtla á Austur-Grænlandsmiðum (65°24'N, 33°00'V). Sú lengsta á Íslandsmiðum, 26 cm, veiddist í apríl 1993 á grálúðuslóð vestan Víkuráls.

Litur: Surtla er svört á lit.

Geislar: B: 3, R: 2-3,- hryggjarliðir: 21.

Heimkynni surtlu eru í Norður-Atlantshafi á milli 35° og 65°N og í Indlandshafi hefur hennar orðið vart. Hún fannst fyrst í maí árið 1877 norðvestur af eynni Madeira (36°Nog 20°V) og var sú surtla aðeins 5 cm löng. Siðan hafa veiðst surtlur á Íslandsmiðum, við Austur- og Vestur-Grænland og Nýfundnaland. Einnig á Bill Bailys-banka, suðaustan Færeyja, en þar veiddist ein, 22 cm löng, í nóvember árið 2002. Í júní árið 2003 veiddist ein, 20 cm löng, á 500- 800 m dýpi suður af Hvarfi (58°42'N, 42°52"V).

Hér við land veiddist sú fyrsta í júní árið 1958 á hryggnum milli Íslands og Færeyja (63°20'N og 11-12°V) og var hún 21 cm á lengd. Í apríl árið 1960 veiddist ein, 20 cm löng, djúpt undan Suðvesturlandi. Þá veiddist ein í mars 1977 undan Suðvesturlandi (63°37'N, 26°38'V), ein árið 1983, tvær árið 1985 og ein árið 1990 og allar á grálúðuslóð vestur af Víkurál. Á árunum 1991 til ársloka 2000 voru skráðar 19 surtlur, 14- 26 cm langar, ýmist veiddar í botnvörpu eða flotvörpu á 500-1100 m dýpi á svæðinu frá Skerjadjúpi vestur og norður á Vestfjarðamið. Á sama tíma veiddist aðeins ein undan Austurlandi (64°29'N, 11°59'V). Hún var 22 cm löng og fékkst í botnvörpu á um 400 m dýpi í maí árið 1999. Af þessum surtlum var ein, 19 cm löng, með 3 cm hæng á kviði. Hún veiddist rétt utan 200 sjómílna markanna djúpt suðvestur af Reykjanesi (62°N, 30°V) í maí 1996. Önnur hængbera, 24 cm löng, veiddist í flotvörpu á miklu dýpi í júní árið 2003 í Grænlandshafi (61°40'N, 32° 11'V) spöl utan 200 sjómílna fiskveiðilögsögunnar. Hængurinn var 4 cm á lengd. Og ekki má gleyma 34 cm surtlu með hæng en hún veiddist árið 1967 góðan spöl utan 200 sjómílna markanna vestan Dohrnbanka við Austur-Grænland (65°30'N, 32°20'V).

Lífshættir: Lítið er vitað um lífshætti surtlu. Hún mun þó vera miðsævis-, botn- og djúpfiskur.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?