Suðræni silfurfiskur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Argyropelecus hemigymnus
Danska: halvnøgen sølvøkse
Færeyska: ljósa silvuroks
Norska: flekket perlemorfisk
Sænska: fläckig pärlemorfisk
Enska: Short silver hatchetfish, halfnaked hatchetfish
Þýska: Mittelmeer Silberbeil
Franska: hache d'argent courte
Rússneska: Topórik

Suðræni silfurfiskur er lítill, hávaxinn og þunnvaxinn fiskur, hausstór og kjaftstór með smáar tennur. Augu eru stór og vita upp á við. Bolur er hár og stuttur en stirtla löng og grönn, grennri en á öðrum silfurfiskategundum af undirættbálki axarfiska. Framan við bakugga er lágur kambur, hæstur að aftast. Aftan við bakugga er langur og lágur veiðiuggi. Raufaruggi er tvískiptur og greinilegt bil á milli. Sporður er sýldur. Eyruggar eru nokkuð langir en kviðuggar litlir. Við rauf er sagtenntur gaddur sem vísar aftur. Á kinnbeini eru tveir gaddar og vísar sá efri dálítið upp á við og út en sá neðri meira niður.

Ljósfærin eru perlugljáandi. Fiskurinn verður allt að 5-6 cm á lengd að sporði.

Litur: Suðræni silfurfiskur er ljósleitur á lit að ofan og á stirtlu og með dökkum belttum á hliðum hauss og á kvið.

Geislar: B: (6+) 8-9; R: 11-12; hryggjarliðir: 36-39.

Lífshættir: Suðræni silfurfiskur er úthafs- og miðsævisfiskur sem veiðst hefur á 50-1000 m dýpi. Fæða hans er einkum krabbaflær, smákrabbar og smáfískar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?