slétti langhali (íslenska)

Slétthali

Samheiti á íslensku:
slétti langhali
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Coryphaenoides rupestris
Danska: almindelig skolæst, langhale
Færeyska: kubbuta langasporl
Norska: buttnase, langstjert, skolest, spiritist
Enska: rat-tail, rock grenadier, roundnose grenadier
Þýska: Grenadierfisch
Franska: grenadier de roche
Spænska: granadero
Portúgalska: lagartixa-da-rocha
Rússneska: Тупорылый макрурус / Tuporýlyj makrurús

Slétthali er langvaxinn, hausstór og afturmjókkandi fiskur. Trýni er stutt, kjaftur í meðallagi stór og tennur beittar. Augu eru stór. Bolur (frá haus að rauf) er mjög stuttur en stirtlan löng og mjókkar mjög aftur og endar í eins konar hala. Bakuggar eru tveir og er sá fremri stuttur og hár en sá aftari langur og lágur. Raufaruggi er einn og langur, lengri en aftari bakuggi og einnig hærri. Aftari bakuggi og raufaruggi sameinast við sporðenda en sporðblaðka er engin. Eyruggar eru í meðallagi stórir og broddgeisli fremst í þeim er sagtenntur. Kviðuggar eru frekar litlir. Þeir eru undir rótum eyrugga eða rétt aftan þeirra. Hreistur er mjög stórgert og smábroddótt. Rák er óslitin og greinileg.

Slétthali getur náð um 110 cm lengd en er sjaldan stærri en 80-90 cm.

Litur: Slétthali er mógrár á baki en silfurgrár á hliðum og kviði. Uggar eru dökkir og einnig innanverður kjaftur og tálknahol.

Geislar: Bl: 10-13,- B2: 103-190,- R: 104- 193,- hryggjarliðir: 99.

Heimkynni slétthala eru í norðaustanverðu Atlantshafi frá Biskajaflóa í suðri vestur til Asóreyja og norður fyrir Bretlandseyjar til Vestur-Noregs, Færeyja og Íslands. Þá er hann við suðaustan- og vestanvert Grænland sunnan heimskautsbaugs, við Labrador og Nýfundnaland og suður á móts við Hatterashöfða í Norður-Karólínuríki.

Útbreiðslusvæði slétthala á Íslandsmiðum er frá djúpmiðum suðaustanlands (Rósagarður-Færeyjahryggur) vestur með Suðurlandi og Suðvesturlandi norður á djúpmið norðvestanlands (grálúðuslóð vestan Víkuráls). Er hann víða algengur á djúpslóð vestan-, suðvestan- og austanlands.

Lífshættir: Slétthali er botn- og djúpfiskur sem veiðst hefur á 180-2195 m dýpi í 2,5- 6,9°C heitum sjó og eru fullorðnir fiskar algengastir á 800-1000 m dýpi en ungir fiskar á meira en 1000 m dýpi. Hann syndir upp í sjó í fæðuleit.

Fæða er einkum alls konar krabbadýr eins og Ijósáta, rækja og krabbaflær en einnig smokkfiskar og fiskar, m.a. laxsíldir. Hann verður sjálfur hvölum og fiskum, svo sem grálúðu, að bráð.

Hrygning fer sennilega fram allt árið hér við Iand, en einkum að hausti og vetri til á meira en 1000 m dýpi djúpt undan suðaustan-, sunnan- og suðvestanverðu landinu. Egg eru 12-35 þúsund og 2,6 mm í þvermál, sviflæg á miklu dýpi og klekjast á tveimur til þremur mánuðum við 3,5-5,0°C.

Vöxtur er hægur en hrygnur vaxa hraðar en hængar. Hængar verða kynþroska hér um 70 cm langir og 14 ára en hrygnur um 80 cm og 16 ára. Hér hefur veiðst 104 cm hrygna sem var 27 ára gömul.

Nytjar: Slétthali hefur verið veiddur í botn- og flotvörpur, einkum af Rússum og nýttur sem matfiskur. Stofnar eru ofveiddir og hefur afli farið minnkandi undanfarin ár. Íslendingar hafa aldrei veitt mikið af slétthala.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?