Skrautsurtla

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Linophryne pennibarbata

Líkt og aðrar surtlur er skrautsurtla hausstór og stuttvaxinn fiskur, kjaftstór með fremur gisinni röð af hvössum tönnum. Veiðistöng á trjónu er fremur stutt (20-25% af staðallengd) en fram úr henni gengur langt Ijósfæri (45-60% af staðallengd) með fimm pörum af hliðargreinum.

Á hálsi er langur angi, með mörgum hliðargreinum. Út frá anganum, ofarlega, ganga tveir tvöfaldir hliðarangar sem vísa fram. Ljósfæri eru efst og neðst í eyruggum, fremst í bak- og raufarugga, efst og neðst í sporðugga.

Litur er svartur.

Geislar: B: 3,- R: 3; E: 15-18.

Heimkynni. Skrautsurtla hefur áður fundist á tveimur svæðum í Atlantshafi, að vestanverðu undan ströndum Flórída og að austanverðu undan Grænhöfðaeyjum. Þá hafa fiskar veiðst í Kyrrahafi sem gætu verið þessi sama tegund. Í október 2007 veiddist 20,5 cm löng skrautsurtla í botnvörpu á 1370-1400 m dýpi djúpt vestur af Reykjanesi (63°42,90'N - 27°29,50'V) og er það nyrsti fundur þessarar tegundar. Fiskurinn var 20,5 cm og er stærsta skrautsurtla sem vitað er um.

Lífshættir. Djúpsjávarfiskur sem hefur veiðst á 910-1500 m dýpi.

Fæða er allt sem að kjafti kemur og skrautsurtla ræður sæmilega við.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?