Skarkoli

Samheiti á íslensku:
rauðspretta
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Pleuronectes platessa
Danska: rødspætte
Færeyska: Færeyska: reyðsproka
Norska: gullflyndre, rødspætte
Sænska: rödspätta
Enska: plaice, european plaice
Þýska: Scholle
Franska: carrelet, plie
Spænska: solla europea
Portúgalska: solha, solha-legítima
Rússneska: Камбала морская / Kámbala morskája

Skarkoli er með frekar stóran beinaberan haus og eru 4-7 beinhnúðar í röð á hægri (dökku) hlið haussins sem upp snýr. Kjaftur er mjög lítill, endastæður og skástæður. Tennur eru smáar en allbeittar. Þær eru fleiri og sterkari á skoltum blindu hliðarinnar. Í koki eru flatar tennur. Augu eru allstór og er vinstra auga aftar en það hægra. Bakuggi byrjar yfir miðju vinstra auga. Sporður er allstór. Hreistur er smátt og slétt. Rák er greinileg og sveigir aðeins yfir eyruggum. Skarkolinn á að geta náð 95 cm lengd. Lengsti skarkoli sem mældur hefur verið hér við land var 85 cm en 25-40 cm annars staðar í Evrópu.

Litur er breytilegur eftir botnlagi og lit botnsins. Oft er hann brúnleitur með þanggrænni slikju á dökku hliðinni. Á henni eru einnig áberandi misstórir kringlóttir blettir, rauðgulir, rauðbrúnir eða ljóstauðir á litinn og stundum með ljósum hring í kring. Vinstri hlið er oftast hvít. Þó koma fyrir öfugir kolar með hægri hlið ljósa en þá vinstri dökka. Einnig þekkjast hvítflekkóttir kolar. Seiði skarkolans eru grádröfnótt á hægri hlið og vantar rauðu blettina.

Geislar: B: 57-80; R:43-61; hryggjarliðir: 43-45.

Lífshættir: Skarkolinn er botnfiskur og grunnfiskur sem lifir á 0-200 m dýpi á sand- og leirbotni. Hann er ekki sérlega viðkvæmur fyrir seltulitlum sjó og á það til að flækjast upp í árósa og lón og sumsstaðar í útlöndum gengur skarkoli meira að segja upp í ár. Hér hefur hans orðið vart m.a. neðarlega í Ölfusá. Oft grefur skarkolinn sig niður í botninn svo upp úr standa aðeins augun. Hann heldur sig á grynnra vatni á sumrin en dýpkar á sér á veturna þegar kólna tekur.

Í rannsóknum hér við land hefur komið í ljós að skarkolinn ferðast talsvert, t.d. gengur hann reglubundið á milli fæðusvæða og hrygningarsvæða. Þannig gengur skarkolinn sem er á fæðuslóð við Vestfirði á haustin á hrygningarstöðvar á Flákakantinum í Breiðafirði og á Hafnarleirunum vestur af af Reykjanesskaga. Skarkoli merktur í Faxaflóa gengur bæði til Vestfjarðamiða og á Selvogsbanka og einstaka fiskur fer í lengri ferðalög bæði norður fyrir land eða suður og austur með landinu. Merkingar undan Norðurlandi sýna að skarkoli gengur suður fyrir land, ýmist vestur- eða austurleiðina.

Nokkrir skarkolar merktir við Ísland á árunum 1954-1973 voru endurveiddir af breskum togurum 1955-1978 og eftir upplýsingum sem fylgdu með endurheimtu merkjum þá veiddust tveir við Hjaltlandseyjar, þrír við Noreg og einn í Hvítahafi. Ef þetta er rétt þá eru þetta einu dæmin um að skarkoli hafi gengið frá Íslandsmiðum til annarra hafsvæða.

Fæða skarkolans er margbreytileg og mest alls konar hryggleysingjar eins og burstaormar, skeldýr, smákrabbadýr og skrápdýr, en einnig smáfiskar eins og sandsíli, loðna og fleira.

Hrygning fer að langmestu fram á 50-100 m dýpi í hlýja sjónum sunnan- og suðvestanlands en einnig undan Vestfjörðum og að einhverju leyti í kalda sjónum norðanlands því egg og seiði hafa fundist þar auk hrygnandi og nýhryngdra fiska. Við Suðurland byrjar hrygning í febrúarlok og stendur hæst í mars og apríl en er að mestu lokið í maílok og byrjun júní. Við Norðurland hefst hrygning í lok mars með hámarki í maí til júní en er að mestu lokið í júlíbyrjun.

Í Norðursjó hrygnir skarkolinn í desember til apríl við 6°V á 20-40 m dýpi og eru aðalhrygningarsvæðin þar í sunnanverðum Norðursjó, undan ströndum Belgíu og Hollands, í Helgolandsflóa, en einnig við austurströnd Skotlands og Englands. Þá fer hrygning fram í vestanverðu Eystrasalti, í dönsku sundunum, í Kattegat og Skagerak, meðfram ströndum Noregs og í Barentshafi en þar hrygnir hann í mars til maí. Eggjafjöldi í hrygnu ( í Norðursjó) er 50-500 þúsund eftir stærð hrygnunnar og svæðum. Þvermál eggja er 1,6-2,1 mm. Í Norðursjónum tekur klakið 10-12 daga og eru lirfurnar 6 mm langar við klak. Að kviðpokastigi loknu nærast þær á kísilþörungum og sviflirfum og því næst á krabbaflóm. Eftir einn til tvo mánuði, þegar lirfurnar eru 10 mm langar, taka þær að breytast í seiði. Vinstra augað fer að færast yfir á efri rönd haussins og seiðin fara að synda með vinstri hliðina niður. Breytingum er lokið þegar seiðin eru 12-14 mm löng og þau leita til botns. Seiðin leita síðan upp að ströndinni og halda sig fyrsta sumarið upp undir fjörumörkum.

Vaxtarhraði fer eftir hitastigi sjávar, fæðuskilyrðum og þéttleika stofnsins. Hrygnur vaxa hraðar en hængar. Skarkolinn getur orðið nokkuð gamall – jafnvel 50 ára samkvæmt norskri heimild. Elstu skarkolar sem aldursákvarðaðir hafa verið hér á síðari árum voru tvær 22 ára hrygnur. Þær veiddust árið 1995, önnur í júlí í sunnanverðum Faxaflóa og var 56 cm löng en hin veiddist í nóvember í Breiðafirði norðvestur af Öndverðarnesi. Hún var 52 cm. Annars eru skarkolar eldri en 20 ára ekki algengir.

Nyrjar: Mjög mikið er veitt af skarkola í norðaustanverðu Atlantshafi. Aðalveiðiþjóðir eru Danir, Hollendinar og Englendingar. Helstu veiðisvæði eru í Norðursjó, Kattegat og Skagerak.

Á Íslandsmiðum varð skarkolaaflinn mestur árið 1985 en þá komst hann í rúm 14.500 tonn.

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?