Silfurbrami

Mynd af gömlu eintaki. Silfurbrami
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Pterycombus brama
Danska: Sølvbrasen
Færeyska: Silvurbramafiskur
Norska: Sölvbrasen
Sænska: Fengömmare
Enska: Atlantic fanfish
Þýska: Silberbrassen
Franska: Poisson éventail atlantique

Silfurbrami er hávaxinn og þunnvaxinn fiskur. Kjaftur er mjög skástæður og vísar næstum því alveg beint upp. Bak- og raufaruggi eru mjög háir og langvaxnir og einkennandi fyrir fiskinn. Bakuggi nær næstum fram á móts við augu og raufaruggi nær fram á móts við eyruggarætur. Báðir þessir uggar geta lagst niður í gróf við uggaræturnar. Sporður er sýldur. Eyruggar eru alllangir en kviðuggar eru fremur litlir og eru þeir framan við eyrugga. Hreistur er stórt og nær ekki út á stöku uggana.

Silfurbrami verður um 50 cm. Sá stærsti hér mældist 47 cm og veiddist í maí 1998 á Reykjaneshrygg.

Litur: Silfurbrami er silfurgljáandi á lit og dekkri á baki. Bak- og raufaruggi eru dökkir. Geislar: B: IX+42-44,- R: 111 + 37-40. Heimkynni silfurbrama eru beggja vegna Norður-Atlantshafs og í Miðjarðarhafi. Í Norðaustur-Atlantshafi er hann við Norðvestur-Afríku, Spán og Portúgal og vestan Bretlandseyja. Hann hefur m.a. veiðst í norðanverðum Norðursjó, við Noreg og hér á íslandsmiðum. Í Norðvestur-Atlantshafi er hann frá Stórabanka til norðanverðrar Suður-Ameríku.

Hér veiddist silfurbrami fyrst við Vestmannaeyjar sumarið 1960 í þorskanet og mældist sá fiskur 44 cm. Í júní árið 1967 veiddist annar á handfæri fjórar sjómílur suðaustur af Hópsnesi við Grindavík. Hann var 40 cm langur. Síðan leið langur tími en loks árið 1998 veiddust fjórir á íslandsmiðum og allir í flotvörpu. Sá fyrsti, 47 cm langur, veiddist í maí á Reykjaneshiygg (61°50'N, 27°25'V) á 550-730 m dýpi og er það að öllum líkindum mesta dýpi sem hann hefur veiðst á til þessa. Næsti fékkst í september á 330 m dýpi í Rósagarði (64°16'N, 12°20'V) og var hann 39,5 cm. Síðan veiddust tveir í október, 39 og 44,5 cm langir, einnig í Rósagarði. Einn, 44 cm Iangur - og sá fyrsti á nýrri öld - veiddist í kolmunnavörpu í maí 2002 á Íslands-Færeyjahryggnum vestan Rósagarðs (63°55'N, 12°32'V). Í nóvember 2004 veiddist svo 41 cm langur fiskur á 275 m dýpi í Rósagarðinum (63°20'N, 12°30'V).

Lífshættir: Silfurbrami er úthafs- og miðsævisfiskur í hlýrri hlutum Norður-Atlantshafs. Þótt hann hafi veiðst niður á 550-730 m dýpi hér þá er hann sjaldan dýpra en 400 m.

Um fæðu er lítið vitað en hrygning á sér stað m.a. undan Flórída, í Karíbahafi og í Mexíkóflóa.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?