Sexstrendingur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Agonus cataphractus
Danska: almindelig panserulk
Færeyska: brynjukrutt
Norska: panserulke
Sænska: skäggsimpa, bottenmus
Enska: armed bullhead, hook-nose, poacher, pogge
Þýska: Steinpicker
Franska: souris de mer
Rússneska: Европейская лисичка / Jevropéjskaja lisítsjka, агонус / agónus, Хахалча / Khakháltsja

Sexstrendingur er lítill fiskur og alþakinn hörðum beinplötum sem mynda röð hvassra brodda á hliðum. Haus er stór og er fiskurinn hæstur á mótum hauss og bols en mjókkar þaðan aftur fyrir annan bakugga. Á snjáldri eru fjórir stórir afturbeygðir broddar en auk þess eru fjórir á efri skolti og tveir á vangabeini. Neðan á snjáldri eru tveir skeggþræðir og auk þess fjöldi skeggþráða neðan á neðri skolti og á gelgjubörðum. Kjaftur er litill og neðan á hausnum svo snjáldrið skagar langt fram fyrir hann. Augu eru lítil. Bolur er stuttur, stirtla löng og grönn aftan við aftari bakugga. Bakuggar eru tveir og oftast samvaxnir erða mjög lítið bil á milli þeirra. Fremri bakuggi er hærri en sá aftari lengri. Andspænis honum er raufaruggi aðeins styttri. Sporður er stór og bogadreginn fyrir endann. Eyruggar eru mjög stórir og breiðari en kviðuggar eru litlir. Rák er greinileg. Hængar eru með lim.

Stærð sexstrendings er allt að 20 cm.

Litur: Sexstrendingur er daufbrúnn eða mógrár á lit að ofan en ljós að neðan. Á eyruggum eru þrír til fjórir þverblettir eða rendur og eins á sporði.

Geislar: B1 IV-VI;B2: 6-8; R:5-7.

Heimkynni sexstrendings eru í norðaustanverðu Atlantshafi við Ísland, Færeyjar, Noreg og inn í Hvítahaf, í Norðursjó og inn í vestanvert Eystrasalt og umhverfis Bretlandseyjar.

Hér við land er sexstrendingur einkum við suður- og suðvesturströndina og víðar en hann er sjaldséður undan Norðurlandi og hans hefur ekki orðið vat ennþá frá Öxarfirði til Seyðisfjarðar.

Lífshættir: Sexstrendingur er botnfiskur, einkum á leirbotni en einnig sand- og malarbotni og gjarnan í þaragróðri á 5-270 m dýpi en hefur fundist allt frá fjöruborði og niður á 500 m dýpi.

Fæða er mest krabbadýr en einnig burstaormar, smáskel, slöngustjörnur, fiskaegg og fleira.

Hrygning fer fram hér við land að vori og sumri. Fundist hafa hrygnur með fullþroskuðum eggjum frá miðjum maí til júníloka í hlýja sjónum sunnan- og suðvestanlands. Við Noreg og í Norðursjó hrygnir sexstrendingur í janúar til apríl og maí. Eggin eru um 2 mm í þvermál og 2400-3000 og er þeim hrygnt í smá kekki. Klak tekur nokkra mánuði og eru seiðni 6-8 mm við klak. Þau eru sviflæg þar til þau hafa náð 20 mm lengd en þá leita þau botns. Sexstrendingur verður að öllum líkindum ekki eldri en 3-4 ára gamall.

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?