Serklingur

Mynd af gömlu eintaki. Serklingur
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Melamphaes microps
Danska: Rundhovedet kogleskælfisk
Enska: Numerous helmetfish

Serklingur er stuttvaxinn og frekar þykkvaxinn fiskur með stóran, nánast brynvarinn haus, hrufóttan og stórskorinn. Augu eru allstór, kjaftur skásettur og frekar smár - nær tæplega aftur á móts við aftari jaðar augna.

Bakuggi er einn, nokkuð langur og miðsvæðis á baki. Raufaruggi er frekar smár og eru fremri rætur hans á móts við aftari rætur bakugga. Eyruggar eru langir og ná aftur fyrir miðjan bakugga. Eyruggarætur eru framan við rætur kviðugga. Sporðblaðka er allstór. Serklingur verður um 10 cm á lengd að sporði.

Litur: Serklingur er gráleitur á lit.

Hryggjarliðir: 28-30.

Heimkynni serklings eru í hlýrri hlutum Atlantshafs og í austanverðu Norður-Atlantshafi hefur hann veiðst á milli 46° og 49°N og 13° og 20°V, einnig á Íslandsmiðum og Grænlandsmiðum þar sem einn veiddist undan Kulusuk á Austur-Grænlandi sumarið 2002. Í norðvestanverðu Atlantshafi hefur hann fundist vestan Nýfundnalands. Einnig hefur hann veiðst nálægt Góðrarvonarhöfða, í Indlandshafi og undan Nýja-Sjálandi.

Nokkrir serklingar eru taldir hafa veiðst á 750-1400 m dýpi undan suðvestur-, suður- og suðausturströnd Íslands í sameiginlegum leiðangri Íslendinga og Sovétmanna á sovéska rannsóknaskipinu Tsivilsk í september árið 1984. Síðan varð serklings ekki vart á Íslandsmiðum svo öruggt sé þar til í júlí 2001 en þá veiddist einn í flotvörpu á 500-800 m dýpi yfir 1600 m botndýpi djúpt suðvestur af Reykjanesi (63°14'N, 27°53'V). Hann var 10 cm langur.

Lífshættir: Lítið er vitað um lífshætti þessarar tegundar nema þetta mun vera miðsævis- og djúpfiskur.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?