Sandsíli

Samheiti á íslensku:
löngusíld, mjóaseiði, mjósíli, pænissíli, selsíld, smokksíld, smokksíli, teistusíli
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Ammodytes tobianus
Danska: Sandgrævling, Lille tobis
Færeyska: Lítla nebbasild
Norska: Tobis, Kvitsil
Sænska: Sandål
Pólska: Tobiasz
Enska: Small sandeel, Sand eel
Þýska: Kleiner Sandaal
Franska: Lançon équille
Spænska: Aguacioso, Lanzón volador
Portúgalska: Galeota-menor, Sandilho-menor
Rússneska: Балтийская песчанка / Baltíjskaja pestsjánka, Малая песчанка / Málaja pestsjánka

Sandsíli og marsíli líkjast mjög, sjá því lýsingu á marsíli. Sandsíli greinir sig helst frá marsíli í því að bolhreistur er í reglulegum röðum og það nær út á sporðrætur, auk þess sem hryggjarliðir eru venjulega færri hjá sandsíli. Þá eru geislar í bak- og raufarugga að jafnaði færri hjá sandsíli en marsíli. Sandsíli verður allt að 20 cm.

Litur: Sandsíli er gul- eða blágrænt á lit að ofan en silfurhvítt að neðan.

Geislar. B: 49-64,- R: 24-33,- hryggjarliðir: 60-66 (meðaltal um 63 við Ísland).

Heimkynni sandsílis eru í norðaustanverðu Atlantshafi frá Íslandi að norðan og vestan og Múrmansk að austan. Það er við Færeyjar, Noreg, í Kattegat og Skagerak og inn í Eystrasalt, í Norðursjó og umhverfis Bretlandseyjar, í Ermarsundi og suður í Biskajaflóa allt til Spánar.

Hér við land er sandsílið við suður-, suðvestur- og vesturströndina.

Lífshættir: Sandsílið er ekki eins mikill kaldsjávarfiskur og marsílið. Það lifir einkum grynnra en á 20 m dýpi - oft í stórum torfum og gengur stundum alveg upp í fjörur. Það heldur sig mest á mjúkum sandbotni og grefur sig gjarna niður þegar hættu ber að höndum. Þá tekst stundum svo óhöndugIega til að það leitar óvart skjóls uppi í gini trönusílis eða sandkola og endar þar líf sitt. Einnig heldur sandsílið sig oft uppi í sjó og er þá fuglum auðveld bráð. Ekki hefur verið rannsakað hvort þetta á meira við um sandsíli en marsíli svo þessi hrakfallasaga gæti einnig átt við um það.

Fæða er alls konar smábotndýr eins og krabbadýr, burstaormar auk fiskseiða og smáfiska.

Hrygning á sér stað hér við suður-, suð-vestur- og vesturströndina. Í nágrannalöndum okkar er talað um vor- og hausthrygningu sandsílis og gæti hún einnig átt sér stað hérna. Egg eru botnlæg eins og egg marsílis.

Kynþroska er náð við um 11-12 cm lengd.

Nytjar: Nytsemi sandsílis er einkum sú að það er mikilsverð fæða margra fiska, t.d. þorsks, ýsu, ufsa, lýsu og fleiri tegunda auk þess sem alls konar fuglar, t.d. kría, rita, lundi, teista og svartbakur, éta það með góðri lyst. Einnig hefur það verið veitt í bræðslu en hlutur þess er ekki mikill samanborið við marsíli (sbr. hér á undan). Vorið 1966 var gerð tilraun til „sandsílisveiða" í Faxaflóa og við Suðvesturland og hún endurtekin árin 1978 og 1979 en bar ekki góðan árangur. Danir og Norðmenn hafa veitt sandsíli (og marsíli) í Norðursjó og Skagerak og Kattegat um alllangt skeið og Skotar hafa veitt það undan ströndum Skotlands.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?